*

Menning & listir 22. febrúar 2013

Smíðar skartgripi með aðstoð skordýra

Franskur listamaður nýtir sér náttúrulega hegðun lirfu kaddisflugunnar til að búa til listaverk úr gulli og gimsteinum.

Lirfa kaddisflugunnar lifir, eins og lirfur margra flugutegunda, í straumvatni. Til að minnka líkurnar á því að þær berist með straumnum og einnig til að verjast rándýrum búa þær til túpulagaða brynju úr möl, skelbrotum og trjágreinabútum og líma hana saman með silki. Franski listamaðurinn Hubert Duprat hefur undanfarna þrjá áratugi nýtt sér þessa náttúrulegu hegðun skordýranna til að búa til ótrúlega skemmtilega listmuni.

Hann fer sjálfur út í náttúruna og safnar saman lirfum, tekur þær varlega úr skeljunum og lætur þær í vatn sem inniheldur aðeins gullflögur, perlur og gimsteina. Lirfurnar nota svo þetta hráefni til að byggja brynjuna upp á nýtt.

Duprat sagði í viðtali að hann hafi fengið hugmyndina þegar hann sá nokkra menn sigta gull við franskan árbakka. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á jarð- og líffræði og af einhverri ástæðu var hann þegar að rækta kaddisflugulirfur. Hann fékk þarna þá hugmynd að láta lirfurnar fá gullflögur til að smíða brynjurnar sínar úr. Fyrst notaði hann aðeins gullflögur, en síðar bætti hann við perlum, rúbínum, demöntum, safírum og öðrum gimsteinum.

Hér má sjá viðtal við Duprat en í myndbandinu sjást lirfurnar einnig að verki.

 

Stikkorð: Skartgripir  • Skordýr