*

Bílar 15. maí 2021

Snarpur og lipur í akstri

Renault Captur er laglegur framhjóladrifinn jepplingur með tengilvinnvél sem skilar sínu og vel það.

Róbert Róbertsson

Renault Captur kom fyrst á markað árið 2013 og hefur verið vinsæll jepplingur síðan þá. Renault varð að koma fram með bíl inn í þennan stærðarflokk sem hefur verið sá vinsælasti á markaðnum undanfarin ár. Renault hefur staðið sig mjög vel á hönnunarsviðinu undanfarin misseri og það kemur ekki á óvart að þessi nýja kynslóð Captur er lagleg og vel hönnuð í alla staði. Bíllinn ber franska ættarsvipinn vel.

Útlitslínurnar eru flottar. Einkennandi C-laga LED-ljósin að framan og aftan sem er aðalsmerki Renault. Reynsluakstursbíllinn er vel búinn: Intens+ útfærsla með BOSE hljómkerfi, íslensku leiðsögukerfi og 360 gráðu myndavél. Innanrýmið er töff og nútímalegt bæði í hönnun og litavali. Þar er 9,3 tommu snertiskjár áberandi og er alveg prýðilegur í aðgengi í alla staði enda er Captur tæknivæddur bíll.

Ný margmiðlunarkerfi með sjálfvirkri uppfærslu birta efnið sem maður vill sjá. Gírstöngin er skemmtilega hönnuð, þýð og þægileg. Það er mikill Renault svipur yfir öllu í innanrýminu sem er einungis jákvætt því eins og áður er nefnt kunna Frakkarnir alveg að búa til fallega hönnun í bílum.


65 km drægni á rafmagninu
Bíllinn er með 65 km drægni á rafmagninu en svo tekur 1,6 lítra bensínvélin við þegar rafmagnið klárast. Captur er raunar með tækni sem kemur beint úr Formúlu 1. Sú tækni kallast ETech og byggir á tveimur rafmótorum sem aðstoða bensínvélina í gegnum sex gíra sjálfskiptingu. Sjálfskiptingin er nokkuð sérstök því að tveir gírar hennar eru tengdir rafmótor en fjórir bensínvélinni.

Aksturinn er snarpur og lipur. Tengiltvinnvélin skilar 160 hestöflum sem er nokkuð gott. Hámarkstogið er 348 Nm. Jepplingurinn er 10,1 sekúndu úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraði bílsins er 172 km/ klst. Eyðslan í blönduðum akstri er uppgefin 1,5 l/100 km og CO2 losunin er 34 g/km.

Aksturseiginleikarnir minna um margt á Renault Clio sem er stórskemmtilegur bíll en Captur er byggður á þeim bíl, bara hærri og jepplingur. Þess má geta að Captur er byggður á CMF-B undirvagninum eins og Clio og raunar Nissan Juke líka.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Renault  • Captur