*

Tölvur & tækni 25. júlí 2015

Snjallsímamarkaðurinn að staðna

Sérfræðingar segja að sala á snjallsímum gæti hætt að vaxa á næstu misserum. Jafnvægi er að myndast á Kínamarkaði.

Sérfræðingar eru farnir að hafa áhyggjur af því að snjallsímamarkaðurinn gæti verið að staðna. Hlutabréfaverð Apple hríðféll í vikunni þar sem iPhone sala var ekki jafn mikil og spáð hafði verið fyrir um. iPhone er mikilvæg tekjulind fyrir Apple og nemur sala á honum tveimur þriðju af sölu fyrirtækisins.

Apple er ekki eini símaframleiðandinn sem finnur fyrir samdrætti. Samsung hefur lækkað útflutningsspá sína fyrir árið. Fjárfestar eru farnir að óttast það að snjallsímamarkaðurinn muni ekki stækka meira, sérstaklega í vaxandi mörkuðum eins og Kína þar sem aukning á sölu var alltaf sjálfgefin. Sala á snjallsímum er nú farin að jafnast í Kína.

Sérfræðingar telja að í framtíðinni verði snjallsímaframleiðendur að tryggja það að nýjustu símamódelin bjóði í raun upp á eitthvað nýtt, eins og Apple gerði með stærri skjá í iPhone 6, til þess að laða fólk að vörunni.

Stikkorð: Apple  • Samsung  • Snjallsímar