*

Tölvur & tækni 10. nóvember 2013

Snjallsímarnir ógna myndavélum

Myndavélar í snjallsímum eru orðnar svo góðar að sala á myndavélum fyrir atvinnumenn hefur dregist saman.

Það er ekkert nýtt að snjallsímar hafa um nokkurn tíma verið að ryðja ljósmyndavélum út af markaðnum, enda eru þeir allir búnir ágætum myndavélum.

Nýjustu símarnir, ekki síst myndavélasímarnir frá Nokia, eru hins vegar búnir svo góðum myndavélum að sala á bestu atvinnumyndavélunum er farin að dragast saman. Í frétt á vefsíðunni Informationweek segir að myndavélaframleiðendurnir Canon og Nikon spái nú minni sölu í ár en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og að linsuframleiðandinn Tamron hafi selt 22% minna af linsum á fyrstu níu mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra.

Haft er eftir framkvæmdastjóra Tamron að snjallsímar ógni stöðu myndavéla á markaðnum, en talsmenn Nikon og Canon segja að veikburða hagvöxtur spili líka hlutverk í þróuninni.

Stikkorð: Snjallsímar  • Myndavélar