
Volkswagen kynnir nýja hugmyndabílinn I.D. Cross Concept á bílasýningunni í Frankfurt. Flottur bíll þótt nafnið sé skrítið hjá bílaframleiðandanum í Wolfsburg.
Volkswagen I.D. Cross Concept var fyrst kynntur á bílasýningunni í Shanghai en nú er það frumraunin í Evrópu og víst er að þessi bíll mun fá mikla athygli eins og margir hugmyndabílar gera jafnan á stóru bílasýningunum.
Þessi sportjeppi frá Volkswagen er framúrstefnulegur í hönnun og á að ganga fyrir rafmagni eingöngu. Drægnin er sögð vera um 500 km við bestu aðstæður og bíllinn á að ná 180 km hámarkshraða. Rafhlöðurnar eiga að ná 80 prósent hleðslu á hálftíma samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.
Bíllinn mun vera mjög tæknivæddur og Volkswagen gengur svo langt að kalla hann snjallsíma á hjólum. Volkswagen Group ætlar sér stóra hluti í rafbílavæðingunni og hefur sett stefnuna á 30 nýja rafbíla fyrir árið 2025.