*

Tölvur & tækni 20. október 2014

Snjallúr frá Microsoft væntanlegt

Allt stefnir í að Microsoft verði á undan Apple á snjallúramarkaðinn því nú berast fréttir af því að nýtt úr fyrir fyrirækinu komi á markað á næstu vikum.

Nýtt snjallúr frá Microsoft er væntanlegt á markað á næstu vikum. Töluvert hefur verið fjallað um nýtt snjallúr frá Apple en ekki er von á því í verslanir fyrr en eftir áramót. Ef áætlanir standa hjá Microsoft verður úrið því komið á markað töluvert á undan Apple-snjallúrinu.

Microsoft snjallúrið mun halda utan um alls konar heilsufarsupplýsingar notandans, eins og hjartslátt. Það mun hins vegar einnig vera hægt að nota það sem síma og tengja það við Xbox one leikjatölvurnar.

Ein helsta nýjungin í Microsoft-snjallúrinu er að það verður hægt að tengja það við Windows-síma, en einnig iOS (iPhone) og Android-síma. Endingartími rafhlöðunnar verður líka lengri en menn eiga að venjast í dag því full hleðsla á að duga í tvo daga. Til samaburðar þarf að hlaða Samsung Galaxy Gear-snjallúrið og Moto 360-úrið frá Motorola á hverjum degi.

Hvorki eru komnar upplýsingar um verðið á þessu nýja úri frá Microsoft né hvað það mun nefnast. Vefútgáfa Forbes-tímaritsins fjallaði um nýja snjallúrið frá Microsoft um helgina. Greinina má lesa hér.