*

Tölvur & tækni 27. ágúst 2013

Snjallúr Samsung kynnt 4. september

Nýtt snjallúr, Galaxy Gear, verður kynnt þann fjórða september næstkomandi.

Samsung mun kynna margumrætt snjallúr, Galaxy Gear, í næstu viku, nánar tiltekið fjórða september næstkomandi. Hefur vefsíðan The Verge þetta eftir frétt í Korea Times. Í samtali við Korea Times segir Lee Young-hee, framkvæmdastjóri farsímasviðs Samsung, að úrið muni keyra Android stýrikerfið og verði með „hörðum" skjá.

Lee segir að um sé að ræða nokkurs konar hugmyndagræju, sem vekur upp spurningar um hvort snjallúrið verði sett á markað fyrir almenning, en hún spáir því að Gear muni verða mikilvæg viðbót við farsímamarkaðinn.

Í sama viðtali sagði Lee að arftaki spjaldtölvunnar Galaxy Note II verði kynntur þann fjórða september og mun nýja spjaldtölvan bera heitið Galaxy Note III. Lee sagði ekkert til í orðrómum um að Samsung ætlaði að kaupa kanadíska snjallsímaframleiðandann Blackberry.

Stikkorð: Samsung  • Galaxy Gear  • Galaxy Note III