*

Bílar 13. ágúst 2017

Snoppufríður sportjeppi

Önnur kynslóð Mazda CX-5 sportjeppans er komin fram á sjónarsviðið. CX-5 vakti athygli þegar hann kom fyrst á markað árið 2012 og kom þá með hinni nýju Skyactiv tækni Mazda sem gengur út á aukna sparneytni.

Róbert Róbertsson

Mazda tengir sportjeppann við Kodo hugmyndafræð­ ina japönsku sem tengist hreyfingum, krafti og lipurð blettatígursins. Þessi nýja kynslóð bílsins er töluvert laglegri og betur búin en forverinn sem þó stóð vel fyrir sínu.

Hönnunin á hinum nýja CX-5 er ljómandi góð og vel heppnuð. Sportjeppinn samsvarar sér vel og heildarútlitið er sportlegt og línurnar flottar með lækkandi þaklínunni að aftan. Flott LED-ljósin að framan gefa bílnum sportlegan svip og afturhlutinn er einnig flottur. Þetta er sportjeppi sem vekur athygli. Það verður að hrósa hönnuðum Mazda sem að undanförnu hafa komið fram með mjög fallega hannaða bíla eins og fólksbílinn Mazda 6 og nú þennan nýja CX-5.

Vandað til verka

Innanrýmið er laglegt og stílhreint í alla staði og efnisval óvenju vandað miðað við Mazda bíl. Eintakið, sem reynsluekið var, er í dýrari Optium útfræslu með leðri og rafstýrðum sætum sem eru afar þægileg. Í Vision útfærslu eru tausæti og þau eru ekki rafstýrð en það munar milljón krónum á týpunum. Sjö tommu snertiskjárinn er vel heppnaður og allar aðgerðir frekar einfaldar ólíkt því sem er í mörgum nýjum bílum í dag.

Nýtt margmiðlunarkerfi var hannað í bílinn með 7 tommu snertiskjá í mælaborði. Auk þess hefur handbremsunni verið skipt út fyrir rafmagnshandbremsu og þar sem áður var handbremsa er nú komið drykkjar- og geymsluhólf milli framsæta. Í þessari Optimum útfærslu CX-5 er bakkmyndavél sem er eiginlega að vera staðalbúnaður í nýjum bílum í dag. Hljómkerfið í bílnum er frá Bose og er mjög gott með 10 hátölurum. 

175 hestar og fínasta tog

Reynsluakstursbíllinn var með 2,2 lítra dísilvél sem skilar 175 hestöflum og togið er 420 Nm. Aflið er alveg prýðilegt í þessum bíl og dísilvélin togar vel. Co2 losunin er 155 g/km og eyðslan er uppgefin frá 5,8 lítrum í blandaðri keyrslu en var aðeins hærri í reynsluakstrinum þótt að­ allega væri ekið í langkeyrslu. Það er alltaf svo að eyðslan er meiri í raunverulegum akstri. Sportjeppanum var svo sem gefið ágætlega inn í þessum reynsluakstri. Nýr Mazda CX-5 fæst einnig með þremur stærðum bensínvéla sem eru tveggja, 2,2 og 2,5 lítra og skila frá 160-195 hestöflum. Sportjeppinn er einugis í boði með i-Activ fjórhjóladrifi sem er nýlegt af nálinni úr smiðju japanska bílaframleiðandans.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu hér. 

Stikkorð: Mazda  • CX-5