*

Matur og vín 28. nóvember 2014

Snúa upp á kleinuna

Kleinubarinn er nýtt samstarfsverkefni þriggja ungra kvenna sem gengur út á að endurhugsa gömlu góðu kleinuna.

Eydís Brynjarsdóttir

Allir Íslendingar þekkja kleinuna, litla snúna kaffibrauðið sem hefur fylgt okkur í minnst 200 ár. Nafn kleinunnar er dregið af þýska orðinu „klein“ eða lítið. Kleinan hefur slaufuform og er tilgangurinn með því sá að það kemur í veg fyrir að þær séu hráar í miðjunni þegar kleinurnar eru steiktar.

Ágústa Arnardóttir, Guðrún Harðardóttir og Krista Hall eru stelpurnar á bak við Kleinubarinn – nýjan pop-up veitingastað sem sérhæfir sig í nýstárlegri kleinugerð. Eftir vinnu hitti þær á ráðstefnunni „You are in control“ sem haldin var á dögunum í Bíó Paradís við Hverfisgötu og ræddi við þær um tilurð og framtíð þessa forvitnilega verkefnis. „Ég hitti Guðrúnu á bar og ég var að tala um 10 ára planið mitt í djóki,“ segir Ágústa Arnardóttir um fyrstu skref Kleinubarsins.

„Ég var með þá hugmynd að taka kleinuna og „pimpa“ hana aðeins, eða að „donut-væða“ hana svipað og hefur verið gert við amerískan kleinuhring . Semsagt að nota djúpsteikt deig í grunninn og leika sér meira með bragðið og hafa þær fjölbreyttari. Guðrún einhvern veginn greip þetta á lofti og í framahaldinu ákváðum við að taka þátt í Restaurant Day sem er alþjóðlegt fyrirbæri sem gengur út á það að þátttakendur opna sinn eigin veitingastað í einn dag. Á sama tíma voru Guðrún og Krista í sumarverkefni sem heitir Torg í biðstöðu og þá ákváðum við að sameina verkefnin, að vera með pop-up veitingastað á Vitatorgi með kleinustand þar sem við settum kleinurnar í nýjan búning.“

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.