*

Menning & listir 18. janúar 2014

Sóknarfæri listasafna

Á síðustu tíu árum hefur nútímalistasöfnum farið fjölgandi í takt við stækkandi markað fyrir nútímalist og aukinn áhuga almennings.

Kári Finnsson

Það kann að virðast ótrúlegt að yfir tvær milljónir manna hafi flykkst í Tate Modern safnið í London árið 2003 til þess eins að sjá herbergi með stórum lampa og spegli. Weather Project Ólafs Elíassonar var engu að síður töluvert meira en bara stór lampi og speglar. Það var upplifunin á bak við verkið sem innsiglaði sigurför hans í hinum alþjóðlega listheimi.

Verkið átti einnig sinn þátt í að auka stórlega við velgengni Tate Modern safnsins sem var aðeins þriggja ára gamalt þegar Ólafur sýndi verkið. 

Bilbao-áhrifin

Í því ljósi er oft vísað til svokallaðra Bilbao-áhrifa, eftir Guggenheimsafninu sem byggt var í Bilbao á Spáni árið 1997. Ráðamenn Bilbao, sem áður var næstum óþekkt hafnarborg í Baskahéraði Spánar, létu reisa safnið í samstarfi við Guggenheim-stofnunina í Bandaríkjunum.

Frá því að safnið var opnað hefur heldur betur orðið viðsnúningur á efnahag borgarinnar. Aðeins á fyrstu þremur árum safnsins tókst borgaryfirvöldum að safna yfir 100 milljónum Bandaríkjadala í skattfé, svo ekki sé minnst á gífurlegan fjölda gesta sem flykkist til safnsins hvaðanæva úr heiminum enn þann dag í dag. Þótt Bilbao-áhrifin séu alls ekki gulltryggð fyrir hverja þá borg sem hyggst láta reisa nútímalistasafn, er ljóst að hagræn áhrif þeirra geta verið gífurleg. Það getur hins vegar haft margvísleg áhrif á tekjumöguleika safna hve mismunandi eignarhald og stjórnarfar þeirra er víðs vegar um heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Ólafur Elíasson  • Tate Modern  • Bilbao