*

Menning & listir 14. júlí 2014

Sotheby's og Ebay í samstarf

Eitt stærsta uppboðshús og uppboðsvefsíða heims stefna á samstarf í haust.

Kári Finnsson

Uppboðshúsið Sotheby's og uppboðsvefsíðan Ebay munu tilkynna í dag að þau munu hefja samstarf sín á milli um sölu á listmunum og öðrum munaðarvörum í gegnum netið. The Art Newspaper og New York Times greindu frá þessu í morgun. Sotheby's er eitt stærsta og elsta uppboðshús í heiminum og Ebay er eitt stærsta netuppboðsfyrirtæki í heiminum. Samstarf þeirra kemur til með að hefjast í haust en þá mun Ebay streyma uppboðum Sotheby's á sérstöku vefsvæði en stefnan er síðan tekin á sérstök uppboð sem einungis munu eiga sér stað í gegnum internetið. 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem fyrirtækin starfa saman því árið 2002 hófu þau samstarf í kringum vefuppboð sem entist aðeins í ár. Talsmenn beggja fyrirtækja ítreka að nú sé listmarkaðurinn opnari fyrir viðskiptum í gegnum internetið. Þrátt fyrir að mörg uppboðshús hafi nú þegar hafið sölu á ýmsum lúxusvarningi í gegnum internetið hefur listmarkaðurinn verið tregari til að taka á sig stafræna mynd. Hafa margir í því ljósi talað um að erfitt sé að selja rándýr listaverk án þess að kaupendur fái færi á að sjá þau fyrst með berum augum. 

Netsala hefur aukist til muna

Allt lítur þó út fyrir að stórtækir safnarar listmuna séu teknir að opna sig fyrir netsölu en helsti keppinautur Sotheby's, Christie's, tók nýlega ákvörðun um fjárfesta 20 milljónum bandaríkjadollara til að efla vefsölukerfi sitt. Sotheby's hefur einnig greint frá auknum viðskiptum á sínu vefsvæði en á síðasta ári jukust netviðskipti hjá uppboðshúsinu um 36% á milli ára. Nú vonast þeir til þess að stækka enn frekar við hóp viðskiptavina sinna en Ebay er með um 145 milljónir virka viðskiptavini um þessar mundir á móti rúmlega 100.000 viðskiptavinum Sotheby's.

Í sérstakri skýrslu um listmarkaðinn sem birt var í kringum TEFAF listamessuna í Maastricht í vor kom fram að netsala á listmunum nam aðeins fimm prósentum af 65,9 milljarða dollara veltu listmarkaðarins í heild á síðasta ári. Í sömu skýrslu var því spáð að netsala myndi aukast um 25% á ári á næstu árum. 

Hér fyrir neðan má sjá skýringarmynd frá Art Market Monitor sem skýrir áhrif samstarfsins nánar:

Stikkorð: Ebay  • Sotheby's