*

Menning & listir 2. mars 2020

Spá Íslandi sigri í Eurovision

Líkurnar á sigri Íslands í Eurovison hafa rokið upp síðustu tvo daga hjá veðbönkum.

Stærsti veðbanki heims, bet365, spáir Íslandi nú sigri í lokakeppni Eurovision sem mun fara fram í Rotterdam í Hollandi. Veðbankinn gefur Íslandi stuðulinn 5 en þar á eftir kemur framlag Litháen með stuðulinn 5,5 og framlag Rúmeníu með stuðulinn 6,5 en önnur lönd er svo með stuðullinn 13 eða hærri. 

Þá er svipaða sögu að segja hjá öðrum stórum veðbönkum því hjá Betfair er Ísland einnig með stuðulinn 5 á meðan Litháen og Rúmenía fá stuðulinn 7 auk þess sem Ísland er með stuðulinn 6 hjá William Hill líkt og Litháen. 

Óhætt er að segja að veðbankar hafi tekið vel í sigur Daða og Gagnamagnsins í forkeppni Eurovision á laugardagskvöld en stuðullinn á Ísland hefur hríðfallið síðustu tvo daga því á laugardag var stuðullinn á Ísland 15. Þess má geta að stuðlar veðbanka hreyfast eftir því sem hærri fjárhæðir eru lagðir undir ákveðið veðmál og því ljóst að margir hafa trú á laginu Think About Things. 

Eftir laugardagskvöldið hafa nú 29 af þeim 41 löndum sem taka þátt í keppninni valið framlag sitt auk þess sem fjögur lönd til viðbótar hafa valið hver verði flytjandi en lönd eins og Rússland, Svíþjóð og Danmörk sem öll hafa sögulega átt góðu gengi að fagna í keppninni, eiga enn eftir að velja sitt framlag. 

Sögulega hafa stuðlar veðbanka gefið góða vísbendingu um hvaða lag endar uppi sem sigurvegari en í 6 af síðustu 11 keppnum hefur lagið með lægstan stuðul um mánuði fyrir keppni endað á að sigra.