*

Sport & peningar 4. febrúar 2013

Spá úrslit Superbowl fyrir um gengi hlutabréfa?

Sterk fylgni er á milli úrslita í Superbowl leiknum og þess hvernig hlutabréfamarkaðir hegða sér það árið.

Töluvert hefur verið fjallað um hækkanir á hlutabréfamörkuðum erlendis undanfarnar vikur. Þrátt fyrir ákveðna verðleiðréttingu síðustu daga eru margar helstu hlutabréfavísitölur háar í samanburði við stöðuna síðustu mánuði og eru sumar þeirra ekki langt frá þeim hæðum sem þær náðu fyrir hrunið 2008.

Nokkrar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessari þróun, t.d. meiri ró yfir evrusvæðinu. Áhugamenn um fótboltatölfræði hafa hins vegar fundið sína eigin sérstöku orsök. Í gær fór fram hinn árlegi úrslitaleikur bandaríska fótboltans, Superbowl, og þar keppa þau tvö lið sem unnið hafa sínar undirdeildir, AFC og NFC. Undirdeildirnar tvær urðu til þegar fótboltadeildirnar NFL og AFL runnu saman árið 1970.

Menn hafa fundið það út að ef liðið sem vinnur var upphaflega í NFL deildinni eru 80% líkur á því að hlutabréfamarkaðir hækki það árið. Í frétt BBC er vissulega tekið fram að fylgni feli ekki í sér orsakasamband, en tölfræðin er eins og hún er. Í þetta sinn vildi svo til að bæði liðin, San Fransisco 49ers og Baltimore Ravens, voru í NFL deildinni upphaflega. Baltimore Ravens unnu leikinn með eftirminnilegum hætti en San Fransisco komst mjög nærri því að sigra á síðustu mínútunum.

Þá hafa tölfræðigúrúrar einnig skoðað gengi hlutabréfa þeirra fyrirtækja sem auglýsa í Superbowl-útsendingunni. Líkur eru því að gengið hækki dagana fyrir og eftir leikinn. Ef mark er takandi á þessari reglu þá ætti gengi Blackberry að hækka í dag, þrátt fyrir að auglýsing fyrirtækisins hafi ekki fengið góða dóma á netinu. Í síðustu viku lækkaði gengi bréfa fyrirtækisins töluvert þrátt fyrir að nýir símar hafi verið kynntir til leiks.

Stikkorð: Superbowl