*

Ferðalög & útivist 12. mars 2013

Spænskunám og sumarbúðir á Spáni

Margrét Jónsdóttir heldur úti sumarbúðum fyrir íslenska krakka á Spáni. Börnin koma heim altalandi á erlendu tungumáli.

Lára Björg Björnsdóttir

Margrét Jónsdóttir, eigandi MUNDO, fór með 25 unglinga í lítið spænskt þorp, Zafra, árið 2010 og í fyrrasumar fór hún formlega af stað með sumar­búðir og spænskunám í Zafra. Hún heldur af stað aftur í sumar og þá með pláss fyrir 30 unglinga. Unglingarnir búa heima hjá fjölskyldum í þorpinu.

„Allir krakkarnir breyttust mikið eftir dvölina því þú þroskast undur­ hratt á skömmum tíma við að búa inni á annarri fjölskyldu og tala eigin­lega ekkert nema spænsku í þrjár vikur. Þau sem voru með smá grunn fyrir ferðina komu heim altalandi á spænsku. Hinir sem ekki höfðu grunn fyrir gátu bjargað sér í lok dvalar. Öll komu þau heim sterkari og sjálfstæð­ari þar sem þau voru í leiðtogapróg­rammi meðfram spænskunáminu,“ segir Margrét.

Krakkar á leiðtoganámskeiði

Margrét var sjálf skiptinemi í þorpinu sem unglingur og þekkir það því vel sem og landið allt:

„Í sumarbúðunum sameina ég allt sem ég er góð í að gera og allt það sem mér finnst skemmtilegt að gera. Ég hef gaman af unglingum, ég hef kennt spænsku í meira en 20 ár og er vararæðismaður Spánar. Ég vann sem leiðsögumaður í mörg ár og hef verið í leiðtogaþjálf­un. Aðstæður mínar í þorpinu mínu eru þannig að allar fjölskyldurnar eru handpikkaðar af vinkonu minni sem er yfirkennari í menntaskóla bæjarins. Í stað þess að borga fjölskyldum fyrir að taka unglinga þá bjóðum við þeirra krökkum á enskunámskeið, á leiðtoga­námskeið og með í allar ferðirnar. Það gerir sumarbúðirnar alveg einstakar fyrir utan öryggið að vera með þau í bæ sem er með allt sem unglingar hafa gaman af en hefur ekki hætturnar sem allir foreldrar óttast. Krakkarnir eru öruggir í Zafra og foreldrar geta treyst því að vel sé haldið utan um krakkana.“

Og þá að aðalspurningunni: Eru ennþá laus pláss?

„Það eru nokkur pláss laus en ég bendi á heimasíðu okkar:,“ segir Margrét að lokum.