*

Veiði 17. janúar 2016

Spáir meðalveiði næsta sumar

Fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun reiknar með því að laxveiðin verði í meðallagi næsta sumar en mikið verði af stórlaxi.

Trausti Hafliðason

Bráðabirgðatölur sýna að síðasta sumar veiddust um 74 þúsund laxar, sem þýðir að veiðin var sú fjórða besta frá því mælingar hófust árið 1974. Þá var veiðin ríflega tvöfalt betri en sumarið 2014. Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, segir að þessi ótrúlega góða veiði síðasta sumar hafi komið á óvart.

„Það er eiginlega ekki hægt að segja annað. Það má líka segja að veiðin 2012 hafi komið á óvart, sem og 2013 og 2014," segir Guðni. „Við höfum ekki séð svona mikla mósaík í tölum á milli ára áður — jafn miklar breytingar milli ára. Venjulega hefur sveiflan í veiðinni í stórum dráttum verið tíu ára sveifla og þá hefur veiðin á hverju ári gefið vísbendingar um næsta ár. Þannig hefur þetta ekki verið undanfarin ár."

Stórlaxasumar?

„Tengsl eru á milli fjölda af eins árs laxi úr sjó og svo tveggja ára laxi árið eftir. Það er sami gönguseiðaárgangurinn. Á árunum fram undir 1980 var hlutfallið af tveggja ára fiski á móti hverjum eins árs fiski úr sjó mun hærra en það hefur verið nú í seinni tíð. Þetta dempaði svolítið sveiflurnar í veiðinni milli ára. Nú höfum við séð að þetta hlutfall er hætt að lækka og aðeins farið að stíga upp á við. Miðað við fjöldann af eins árs laxinum sem við sáum síðasta sumar bendir allt til þess að það verði mikið af tveggja ára laxi næsta sumar.

Guðni er mjög varkár þegar hann er spurður hvort hann vilji einhverju spá um veiðina næsta sumar: "Við vitum allavega að miðað við fjöldann af eins árs laxi síðasta sumar þá verður mun meira af tveggja ára laxi í ánum næsta sumar en var á síðasta ári. Hingað til hefur þetta samband alltaf haldið og við spáum því að svo verði áfram. Tveggja ára laxarnir ganga tiltölulega snemma upp í árnar og miðað við að þeim sé að mestu sleppt þá verða þeir í ánum út veiðitímann. Ég hugsa að veiðin næsta sumar verði nálægt meðaltalinu."

Meðaltalsveiðin frá 1974 er um 40 þúsund laxar. Ef spá Guðna rætist verður veiðin því töluvert minni en síðasta sumar, þegar um 74 þúsund laxar veiddust.

Kalt vor

Guðni segir að á síðasta vor hafi verið frekar kalt og það kunni að hafa haft áhrif á útgöngu seiða.

„Seiðamælingar sýndu að eitthvað af seiðunum sátu eftir. Ég veit ekki hvaða áhrif það kemur til með að hafa. Við höfum ekki tölur til að meta áhrifin af þessu og þess ber líka að geta að útganga seiða er aðeins mæld í örfáum ám. Þó það sé kalt vor og seiði fari seinna þarf það ekki endilega að hafa áhrif á endurheimtuna, svo framarlega sem þau ganga út."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • laxveiði