*

Sport & peningar 30. júní 2012

Spánverjar og Ítalir keppa um fleira en bikar á sunnudaginn

Þrjár milljónir evra til viðbótar eru í húfi fyrir liðið sem sigrar Evrópumótið á sunnudaginn.

Guðni Rúnar Gíslason

Spánverjar og Ítalir keppa um fleira en bikar, gullmedalíur og heiðurinn þegar þeir mætast í úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu á sunnudaginn.  Munurinn á fyrsta og öðru sæti á mótinu er þrjár milljónir evra, um 476 milljónir íslenskra króna.

Fyrir hvert jafntefli í riðlakeppni fæst svo hálf milljón evra og ein milljón fyrir hvern sigur. Einni milljón evra er svo veitt til þeirra liða sem lenda í þriðja sæti í riðlakeppninni. Ef landslið komast upp úr riðlakeppninni þá fá þau tvær milljónir evra í sinn hlut. Þrjár milljónir evra eru svo veittar til viðbótar fyrir að komast í undanúrslit.

Sigurvegarinn hlýtur 7,5 milljónir evra í sinn hlut á meðan annað sæti þarf að sætta sig við 4,5 milljónir. Þetta er til viðbótar við allt annað verðlaunafé sem safnast hefur saman á meðan á keppninni stóð. Ef lið sigrar í öllum leikjum sínum í riðlakeppninni og heldur svo sigurgöngunni áfram og sigrar í mótinu hlýtur það 23,5 milljónir evra í sinn hlut. Það samsvarar um 3,7 milljörðum íslenskra króna.

Stikkorð: Knattspyrna  • EM