*

Hitt og þetta 21. janúar 2013

Sparað í janúar

Hver vill ekki spara smá pening í janúar þegar allt er... tja, eins og það er.

Lára Björg Björnsdóttir

Viðskiptablaðið tók saman nokkur sparnaðarráð sem má alveg prófa. Annars er bara hægt að halda áfram að eiga ekki pening. Þið ráðið.

1. Farðu alltaf á sama veitingastaðinn og kynntu þig með nafni hátt og snjallt. Þegar þú ert farin(n) að þekkja flest starfsfólkið skaltu hlaða lofi á mat, þjónustu og innanstokksmuni. Segðu að líf þitt væri innantómt og ömurlegt ef ekki væri fyrir þeirra veitingastað. Ekki mundi skaða hálfan hlut að syngja eitthvað fallegt. Þetta hlýtur að keyra niður verðið á rétti dagsins um 5%. Jafnvel 10%. 

 

2. Fáðu bíla lánaða hvar sem þú kemur á mannfagnaði. Geymdu allar IKEA ferðir og aðra langa túra fyrir kaffiboð/barnaafmæli/fermingar. Þegar þú gengur inn í stofuna (þú mætir hjólandi eða í strætó) þá manstu skyndilega eftir einhverju sem þú þarft nauðsynlega að redda og færð bílinn lánaðan hjá næstu ömmu.  

 

3. Kvartaðu. Orðtakið The squeaky wheel get´s the grease á vel við hér. Láttu alla sem heyra vilja vita hvað þú átt lítinn pening í þeirri von að einhver sjái aumur á þér og gefi þér fé. Hér eru foreldrar vænlegustu fórnarlömbin. Ef einhver spyr hvað þú segir gott réttu þeim bankayfirlitið þá og farðu að gráta. Ef það er allt í lagi með fjárhaginn fáðu þá yfirlitið lánað hjá næsta blanka manni/konu sem þú þekkir. 

 

4. Kenndu fjölskyldunni að dansa. Næst þegar þér er boðið í brúðkaup spurðu þá hvort þið fjölskyldan megið gefa gjöfina sem dansinn er vegna þess að þið eigið svo lítinn pening. Síðan má mæta í brúðkaupið í heimagerðum búningum og djöflast eins og enginn sé morgundagurinn. 

 

5. Gamla góða smakkið. Finndu út hvenær Hagkaup er með matarkynningar og mættu með alla fjölskylduna. Hvenær eru Garðheimar að grilla pylsur úti plani? Þið þangað. Ertu kaffiþyrst(ur)? Kíktu í næsta bankaútibú. Þar er líka stundum djús. Og brjóstsykur í skálum.  

 

6. Heimilisfræði í grunnskólum. Ekki vanmeta það sem börnin koma með heim. Brauðbollurnar og pizzusnúðarnir eru aldeilis gerðarlegir forréttir þegar búið  er að leggja á borð og kveikja á kertum. 

 

7. Aukasneiðin í servéttuna trikkið hefur aldeilis komið heilu ættflokkunum í gegnum harða vetur. Alltaf þegar boðið er upp á brauð/kökur á kaffistofunni í vinnunni, til dæmis þegar einhver á afmæli eða þegar einhver er að hætta, skaltu taka þér aukasneið og geyma. Ef þú átt nett tupperwarebox má alveg lauma góðgætinu í það til að halda ferskleikanum. Verði þér að góðu.

 

8. Án þess að hvetja svona beint til þjófnaðar þá skaltu fyrir alla muni stela innkaupapokum í matvörubúðum. Þó að starfsmaðurinn á kassanum skammti poka þá þvælist oft aukapoki með. Steldu honum. Þetta telur allt á endanum. Allt! 

 

9. Taktu alltaf afritið þegar þú kaupir hluti. Safnaðu þeim síðan saman, límdu með límbandi og búðu til eitthvað fallegt næst þegar þér er boðið í barnaafmæli númer átta þúsund hjá fólkinu sem á öll börnin. 

 

10. Taktu alltaf með þér litla brúsa þegar þér er boðið í heimsókn til sama fólksins og á öll börnin. Farðu inn á bað og tappaðu af fínu sjampóunum þeirra og kremunum. 

Stikkorð: Sparnaður