*

Sport & peningar 8. september 2019

Sparkari með 700 milljónir í árslaun

Listi yfir launahæstu leikmennina í NFL-deildinni í Bandaríkjunum.

Russell Wilson, leikstjórnandi Seattle Seahawks, er launahæsti leikmaður NFL-deildarinnar með 35 milljónir dollara í árslaun eða tæplega 5 milljarða króna.

Athygli vekur að sparkarar, sem einungis koma inn á leikvöllinn til að reyna við vallarmark eða aukastig eftir snertimark eru á alveg ljómandi fínum launum þó þau séu reyndar miklu lægri en laun flestra annarra inni á vellinum. Launahæsti sparkarinn í NFL er Justin Tucker, leikmaður Baltimore Ravens. Hann er með 5 milljónir dollara í árslaun, eða 700 milljónir króna.

Gríðarlegir fjármunir

Tímabilinu í ameríska fótboltanum lýkur sunnudaginn 2. febrúar þegar 54. úrslitaleikur NFL-deildarinnar (Super Bowl LIV) fer fram. Að þessu sinni fer Super Bowl-leikurinn fram á Hard Rock-vellinum í Miami, heimavelli Miami Dolphins.

Úrslitaleikur NFL-deildarinnar er vinsælasta sjónvarpsefni vestanhafs. Síðasta vetur horfðu yfir um 150 milljónir Bandaríkjamanna á útsendingu frá leiknum. Vinsældirnar þýða að auglýsingaplássið er fokdýrt. Meðalverð á 30 sekúndna auglýsingu verður tæplega 5,3 milljónir dollara að þessu sinni eða um 670 milljónir króna.

Auglýsingastofan Hvíta húsið reiknaði snertiverð auglýsinga í leiknum, sem fór fram árið 2018 og var það 3 krónur. Til samanburðar var snertiverð auglýsinga í Áramótaskaupinu íslenska 2,5 krónur. Fyrirtæki nota gjarnan þennan stórviðburð til að frumsýna nýja auglýsingar og af þeim sökum er viðburðurinn mjög áhugaverður fyrir auglýsinga- og markaðsfólk. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.