*

Bílar 5. janúar 2016

Rafmögnuð spenna í bílageiranum fyrir CES

General Motors og Ford munu kynna nýjungar á rafbílamarkaði á tæknisýningunni í Las Vegas.

Tæknisýningin Consumer Electronics Show (CES) er orðin að sameiginlegum kynningargrundvelli fyrir alla stærstu raftækja- og tækniframleiðendur heims. Í ár munu bifreiðaframleiðendur kynna rafbifreiðar sínar á sýningunni í von um að hrista upp í rafmagnsbílamarkaðnum.

Meðal þeirra sem munu kynna eru Ford og General Motors, auk hulduframleiðandans dularfulla Faraday Future.

Ford hefur þá verið orðað við Google og sjálfkeyrandi snjallbifreiðar tækniframleiðandans, og ekki er ólíklegt að tilkynnt verði um formlegt samstarf risanna tveggja.

General Motors mun þá að öllum líkindum afhjúpa rafbifreiðina ‘Bolt’ sem á að hafa rafhlöðuendingu upp á 320 kílómetra. Hugsanlegt er að Bolt verði til sölu á verði í kringum 4 milljónir króna eða svo, sem væri mikil framför fyrir markaðinn - bílar með slíka rafhlöðuendingu miðað við verð hafa ekki sést áður.

Stikkorð: Google  • Bílar  • GM  • Ford  • Vísindi  • Rafbílar  • Tækni  • CES  • Snjallbílar