*

Bílar 9. júní 2017

Spennandi frumsýningar

Nokkrar spennandi frumsýningar verða hjá bílaumboðum á morgun laugardag. Hekla frumsýnir nýja Volkswagen Bjöllu og nýjan Golf.

Nokkrar spennandi frumsýningar verða hjá bílaumboðum á morgun laugardag. Hekla frumsýnir nýja Volkswagen Bjöllu og nýjan Golf. Askja kynnir nýjan Mercedes-Benz GLA og Ís-band kynnir nýjan Fiat.

Bjalla Dune er uppfærð útgáfa af vinsælu Bjöllunni sem hefur um áraraðir vakið mikla lukku hér á Íslandi sem og annars staðar um heiminn. Golf er vinsælasti bíll Volkswagen. Nýverið var gerð viðamikil uppfærsla á sjöundu kynslóð Golf ásamt andlitslyftingu. Frumsýndar verða allar útfærslur af nýjum Golf en líklega enginn annar bíll í þessum stærðarflokki fæst í jafnmörgum útgáfum. Stærstu fréttirnar eru ef til vill þær að rafmagnsbíllinn e-Golf er orðinn enn aflmeiri og fer allt að 300 km. á hleðslunni. Með nýrri rafhlöðu hafa afköstin aukist úr 115 hestöflum í 136 hestöfl og togið er nú 290 Nm, en þrátt fyrir aukningu afls og drægni er orkunotkunin sú sama.

Nýr og breyttur Mercedes-Benz GLA verður frumsýndur hjá Bílaumboðinu Öskju á morgun kl. 12-16. Um er að ræða einn mest spennandi smájeppann á markaðnum í dag. Meðal aflmikilla og sparneytinna útfærslna er GLA 250 4MATIC sem býr yfir hröðun úr kyrrstöðu í 100 km hraða á klst á einungis 6,6 sekúndum. GLA eyðir frá 4,8 lítrum á hundraðið með 4MATIC fjórhjólasrifinu.

Íslensk-Bandaríska bílaumboð, umboðsaðili Fiat á Íslandi, frumsýnir á morgun nýjan Fiat Tipo. Í boði eru tvær vélarstærðir, 1400 rúmsentimetra 120 hestafla bensínvél með 6 gíra beinskiptingu og 1600 rúmsentimetra 120 hestafla díselvél með 6 gíra sjálfskiptingu.  Fiat Tipo er fáanlegur sem 5 dyra hlaðbakur eða sem skutbíll og hægt er að velja um tvær útfærslur, Easy og Lounge.

Stikkorð: Bjalla  • Frumsýningar  • Dune