*

Bílar 18. febrúar 2018

Spennandi sportjeppi

Kraftlegur og nettur jeppi í millistærð frá enska lúxusbílaframleiðandanum Jaguar.

Róbert Róbertsson

Nú hefur Jaguar E-Pace, sem er fyrsti millistærðar sportjeppinn frá enska lúxusbílaframleiðandans, numið land á Íslandi. Þetta er minni bróðir hins stæðilega F-Pace sem nú þegar hefur vakið talsverða athygli hér á landi. Víst er að minni bróðirinn E-Pace mun gera slíkt hið sama en hér er kominn sterkur kandídat í ört stækkandi sportbílaflóruna.

Þetta er bíll sem fer í harða samkeppni við Range Rover Evogue, Porsche Macan auk lúxus sportjeppanna frá BMW, Audi og Mercedes-Benz, Lexus og Volvo. Hér er auðveldlega hægt að æra óstöðugan enda margir flottir sportjeppar í boði.

Nettur en kraftalegur

Jaguar E-Pace er vel búinn og fallega hannaður að innan og utan. Hann er kraftalegur þótt hann sé frekar nettur. Útlínur E-Pace eru mótaðar af sveigðri þaklínu sem rennur saman við vindskeið fyrir ofan hallandi framrúðuna. Að framan og aftan setja laglega hönnuð LEDljós flottan svip á bílinn. Þessi sportjeppi er klárlega með útlitið með sér. Að innan minnir hann mig þónokkuð á annan enskan lúxus sportjeppa, Range Rover Evogue, sérstaklega í miðstokknum og með skjáinn innfallinn í hann miðjan. Að öðru leyti hefur hann sína sérstöðu og kattarmerkið í stýrinu fullvissar mann um það. Bíllinn sem reynsluekið var, hafði mikinn lúxus innandyra þar sem vönduð leðurinnréttingin leikur stórt hlutverk.

9,3 sekúndur í hundraðið

Jaguar E-Pace er í boði með 150 og 180 hestafla dísilvélum. Ég prófaði stærri vélina í reynsluakstrinum og hún er prýðilega afkastamikil. 2 lítra dísilvél og 180 hestar. Togið er 430 Nm. Sportjeppinn er 9,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hann mætti svo sem alveg vera sneggri en þetta er vel viðunanlegt. Hámarkshraðinn er 205 km/klst. Eyðslan er frá 5,6 lítrum á hundraðið og CO2 losunin er 147 g/km.

E-Pace er stöðugur og góður í akstri hvort sem er á beinum kafla eða í beygjum. Hann var nokkuð stífur og sportlegur í akstri en hann var á stórum felgum í reynsluakstrinum. Sumum finnst hann líklega óþægilega stífur og bíllinn væri væntanlgea nokkuð mýkri á minni dekkjum. Þetta r þó alltaf smekksatriði efttir því hvað hverjum og einum finnst.

Níu þrepa sjálfskipting EPACE er mjúk og skilvirk. Bíllinn er búinn Adaptive Dynamics-fjöðrunarkerfi sem hjálpar til við ná góðum aksturseiginleikum. Kerfið gerir vel í að viðhalda góðu jafnvæginu milli þæginda og lipurleika í akstrinum. Bíllinn er mjög þéttur í alla staði og það finnst alveg vel í akstrinum.

Hraðatölur í rúðinni

JaguarDrive Control-rofinn í miðjustokknum gerir ökumanni kleift að sérsníða akstursupplifunina með því að velja á milli hefðbundinnar stillingar, sparneytinnar stillingar (ECO), kraftstillingar og vetrarstillingar fyrir stýri og inngjöf. Þetta er skemmtilegur valkostur og gefur manni færi á að velja hvernig akstursupplifun maður vill fá. Í reynsluakstursbílnum kom hraðatalan upp á rúðunni fyrir framan mig sem er sérlega þægilegt. Þetta er aukabúnaður sem kostar sitt en gaman að sjá hraðatöluna í rúðunni og þetta er einnig ákveðið öryggisatriði því ökumaður þarf þá ekki að taka augun af veginum til að tékka hraðann.

E-Pace er vel búinn þegar kemur að örygginu og má þar nefna ASPC-gripkerfið sem býður upp á öruggari akstur á hálu yfirborði. Hér er um að ræða lághraða hraðastillingu sem gerir E-Pace kleift að ráða við aðstæður þar sem grip er takmarkað. E-Pace kostar frá um 6 milljónum og alveg upp í 10 milljónir allt eftir búnaði. Bíllinn sem reynsluekið var kostar yfir 9 milljónir enda var hann mjög vel búinn.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskitpablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.