*

Tölvur & tækni 24. október 2012

Spjaldtölva Microsoft fær blendin viðbrögð

Tæknispekúlantar eru allt annað en hrifnir af Surface-tölvu Microsoft. Þeir segja stýrikerfið ruglingslegt.

Spjaldtölvan frá Microsoft sem heitir Surface og keyrir á nýjasta stýrikerfinu, Windows 8, fær ekki góða dóma gagnrýnenda. Þeir sem hafa prófað gripinn segja snertimöguleikann góðan. Á móti sé upplausnin ekki góð, tölvan þung, myndavélin undir vænting og smáforritin sem Microsoft bjóði upp á alltof fá. 

Microsoft kynnir spjaldtölvuna ásamt því að svipta hulunni af endanlegri gerð stýrikerfisins á föstudag. Tæknispekúlantar hafa frá því fyrst var rætt um spjaldtölvuna ekki hafa búist við miklu af henni og telja Microsoft hafa ýtt framleiðslu hennar úr vör til þess eins að kynna stýrikerfið.

Mathew Honan, tækniskríbent hjá tímaritinu Wired, segir tölvuna ekki geta keppt við aðrar spjaldtölvur á borð við iPad og Kindle. Hann segir hana ruglingslega blöndu sem virðist bæði vera hönnuð til þess að neyta efnis eins og iPad-spjaldtölvuna og skapa eins og hefðbundna einkatölvu. Tölvan verður eins og aðrar spjaldtölvur með snertiskjá. Henni fylgir hins vegar lyklaborð. 

Honan segir m.a. að Microsoft hefði átt að ganga alla leið og sleppa hefðbundnu Windows-vinnuumhverfinu með öllu. Hnappur á stýrikerfinu gerir nefnilega notendum stýrikerfisins kleift að hverfa frá kassalegu útilitinu á Windows 8 og opna umhverfi sem líkist að mestu leyti því sem notendur Windows-stýrikerfisins hafa þekkt í 17 ár. 

Þessu til viðbótar segir David Pogue hjá The New York Times vonbrigði að tölvan bjóði ekki upp á aðra tengimöguleika við netið en staðarnet (Wi-Fi). Hann segir það sömuleiðis trufla sig, að stýrikerfið skjótist á milli umhverfa, þ.e.a.s. frá spjaldtölvu-umhverfinu og yfir í hefðbundna umhverfið. 

Stikkorð: Microsoft  • Windows 8  • Surface