*

Sport & peningar 11. apríl 2011

Sport & peningar: Predator-línan flaggskip Adidas

Íþróttavöruframleiðandinn Adidas er á miklu skriði þegar kemur að knattspyrnu.

Magnús Halldórsson

Knattspyrnumenn verða að eiga góða skó til þess að geta náð árangri í íþrótt sinni. Vinsælustu skórnir í heiminum eru Adidas Predator. Undir þá falla síðan nokkrar undirtegundir Predatorlínunnar. Upphaflega voru skórnir markaðssettir sem byltingarkennd nýjung þegar kemur að markskotum. David Beckham leiddi markaðsherferð fyrirtækisins, á hátindi ferilsins, þegar hann lét áhorfendur oftar en ekki standa á öndinni vegna einstakrar spyrnutækni í kappleikjum með Manchester United.

Mikil álagning

Í dag er Predator markaðssettur sem alhliða fótboltaskór og telst vera flaggskip fyrirtækisins þegar kemur að knattspyrnu. Predatorskórnir eru ekki beint ódýrir. Á Íslandi kosta nýjir Predator X TRX FG tæplega 40 þúsund krónur, þ.e. í verslun Intersport. Almennt hér á landi er verðið á þessari tegund á bilinu 40 til 50 þúsund.

Á vefnum Amazon er hægt að kaupa sömu tegund á rúmlega 20 þúsund. Sama má segja um verslanir í Bretlandi en þar er algengt verð um 20 til 25 þúsund. Álagningin er því töluverð hér á landi á þessari vöru.

Mikil söluaukning

Árið 2010 var gjöfult fyrir Adidas Group. Ársreikningur fyrirtækisins sýndi um 95% söluaukningu miðað við árið á undan. Í heild námu tekjur Adidas tæplega 12 milljörðum evra eða sem nemur 1.920 milljörðum króna. Munaði þar ekki síst um metsölu á varningi á þriðja ársfjórðungi 2010 þegar heildarsala nam tæplega fjórum milljörðum evra. Einkum og sér í lagi má þakka það mikilli sölu í kringum HM í Suður-Afríku sem fór fram um mitt ár.

Reebok hluti af samsteypunni

Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Reebok er nú orðinn hluti af Adidas-samteypunni. Mikil vinna á sér nú stað innan Adidas með það að markmiði að endurvekja Reebok sem alhliðavörumerki fyrir konur og ungt fólk. Í ársskýrslu fyrir árið 2010 er tekið fram að árangurinn af þessar endursköpun á vörumerkinu eigi að sjást áþreifanlega á þessu ári og því næsta.

Adidas í tölum:

 

  • 68% tekna Adidas í fyrra komur úr heildsölu
  •  20% tekna kom í gegnum Adidas-verslanir víða um heim
  • Heildartekjur Adidas í fyrra námu um 1.920 milljörðum króna.
  • Á árinu 2009 námu heildartekjur 1.684 milljörðum.
  • 30% tekna Adidas koma frá Vestur-Evrópu
  • »» 23% tekna koma frá Bandaríkjunum og Kanada
  •  Um 8% tekna koma nú frá Kína og er það mesta vaxtarsvæðið
  • Um 16% koma frá öðrum Asíulöndum.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins á síðunni Sport & peningar.

Stikkorð: Adidas  • Predator-skór