*

Sport & peningar 28. maí 2011

Sport & Peningar: Verða að rétta hallann

Samanlagt tap liðanna í ensku úrvalsdeildinni var 486 milljónir punda á bókhaldsárinu 2009/2010.

Þrátt fyrir að Spánverjar séu heims- og Evrópumeistarar í knattspyrnu og núverandi lið Barcelona sé af mörgum talið eitt besta félagslið sögunnar er sennilega engin knattspyrnukeppni í heimi hér vinsælli en enska úrvalsdeildin. Sennilega hefur enska úrvalsdeildin heldur aldrei verið vinsælli en einmitt um þessar mundir og kannski undanfarin ár. Miðar á leiki í deildinni eru þeir dýrustu í heimi og liðin í úrvalsdeildinni raka til samræmis við það inn peningum en einnig vegna sjónvarpstekna og búningasölu.

Þannig voru samanlagðar tekjur þeirra tuttugu liða sem þátt tóku í úrvalsdeildinni á þessi tímabili um 2,1 milljarður punda á bókhaldsárinu 2009/2010 og hafa samanlagðar tekjur úrvalsdeildarliðanna aldrei verið hærri yfir eitt tímabil að sögn breska blaðsins Guardian (þess má geta að inni í þeirri tölu eru tekjur Arsenal af því að selja íbúðir á gamla heimavelli sínum Highbury). Vandinn er bara sá að tekjurnar hefðu þurft að vera aðeins meiri því samanlögð útgjöld félaganna voru um 2,6 milljarðar punda. Samanlagt töpuðu félögin því um 486 milljónum punda á bókhaldsárinu og er það samkvæmt Guardian einnig met.


Stækka má myndina með því að smella á hana.

 

Það ku vera himinhár launakostnaður leikmanna og sömuleiðis dýr leikmannakaup sem valda þessu mikla tapi en samanlagður launakostnaður liðanna 20 nam 1,4 milljörðum punda á bókhaldsárinu 2009/2010, sem sagt 2/3 af heildartekjum. Þá er það alkunna að þau lið sem hafa metnað til þess að vinna deildina eða tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu eyða mestum peningum. Það voru enda þau lið sem lagt hafa hvað mest upp úr því, síðasta áratuginn eða svo, sem töpuðu mestu fé á tímabilinu. Langmest var tap Manchester City sem tapaði 121 milljón punda, fyrir skatt, eða meira en fjórðungi af samanlögðu tapi félaganna 20. Þar á eftir komu síðan Manchester United og Chelsea sem töpuðu 79 og 78 milljónum punda, fyrir skatt, á tímabilinu. Fjórða liðið í hópi þeirra sem nú þegar hafa tryggt sér sæti í Meistaradeild næsta vetrar hagnaðist um 56 milljónir punda á tímabilinu en þá ber að hafa í huga að áðurnefnt fasteignaverkefni á Highbury skilaði félaginu 156 milljónum punda hagnaði, fyrir skatt, sem bendir til þess að rekstur félagsins hafi skilað um 100 milljónum punda tapi og því sæti Arsenal væntanlega á milli Manchester- liðanna á tossalistanum ef ekki væri fyrir fasteignaverkefnið arðbæra.

Sextán félög töpuðu peningum á tímabilinu, mismiklum peningum vitanlega, og þurfa mörg þeirra að reiða sig á að eigendurnir leggi þeim til fé. Spurningin er hvort félögunum takist að breyta þessu á næstu árum en UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, hefur gefið það út að félögum sem tapa meiru en 45 milljónum evra samanlagt á þremur tímabilum frá og með því sem hefst í haust verði ekki heimil þátttaka í Evrópukeppnum. Ennfremur heimilar UEFA ekki að eigendur félaganna leggi þeim til fé í því skyni að fegra uppgjörin.