*

Bílar 7. desember 2017

Sportjeppi frá Lamborghini

Lamborghini hyggst setja sportjeppa á markað á næsta ári. Nýi sportjeppinn nefnist Urus og verður gríðarlega aflmikill.

Lamborghini kann að smíða hraðskreiða bíla og því kemur ekki á óvart að hinn nýi Urus verði með aflmikið vopnabúr. Urus verður með gríðarlega öfluga 650 hestafla V8 vél undir húddinu sem kemur bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,6 sekúndum.

Urus verður með 8 gíra sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi. Fyrirtækið ætlar með nýja sportjeppanum að sækja inn á nýja markaði. Að sögn Stefano Domenicali, forstjóra Lamborghini, er stefnan hjá fyrirtækinu að tvöfalda söluna á næstu 18 mánuðum. 

Lamborghini er þekktara fyrir framleiðslu á ofursportbílum en það verður fróðlegt að sjá hvernig ítalska sportbílaframleiðandanum tekst til með Urus.

Bíllinn verður hlaðinn lúxus og á að vera með fína aksturseiginleika samkvæmt upplýsingum frá bílaframleiðandanum. Það væri ólíkt Lamborghini ef þessi sportjeppi verður ekki góður akstursbíll. Samkvæmt myndum af sportjeppanum þá hefur hann útlitið með sér eins og Lamborghini er þekkt fyrir.

Stikkorð: Lamborghini  • sportjeppi  • Urus  • Stefano Domenicali