*

Bílar 27. nóvember 2019

Sportjeppi fyrir James Bond

Fyrsti jeppinn kemur úr smiðju breska bílaframleiðandans Aston Martin, sem njósnari hennar hátignar hefur haft dálæti á.

Róbert Róbertsson

Aston Martin kynnti nýjan og glæsilegan sportjeppa á bílasýningunni í LA sem nú stendur yfir. Þetta er fyrsti jeppinn sem kemur úr smiðju breska bílaframleiðandans. Sportjeppinn hefur fengið nafnið DBX og er með coupé lagi þ.e. afturhallandi þakilínu sem gefur honum býsna sportlegt útlit.

Bíllinn er fjórhjóladrifinn og mjög aflmikill enda ekki við öðru að búast frá Aston Martin. Hann er með 550 hestafla V8 vél sem er búinn níu þrepa gírkassa og skilar 700 Nm í togi. Það er býsna gott fyrir svo stóran og þungan bíl en hann vegur alls 2,2 tonn. DBX er rúmlega fimm metra langur, tveir metrar á breidd og með 16,8 cm veghæð.

DBX kom fyrst fram á sjónarsviðið sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Genf fyrir fjórum og háflu ári en er nú kominn á framleiðslustig. Sportjeppinn mun kosta rúmar 26 milljónir króna og kemur á markað á öðrum ársfjórðungi 2020 samkvæmt upplýsingum frá Aston Martin.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort James Bond, njósnari hennar hátignar, muni fá DBX sportjeppann í næstu kvikmynd um 007 sem kemur á næsta ári en eins og kunnugt er hefur James Bond mikið dálæti á Aston Martin bílum og hefur keyrt þá ófáa í gegnum tíðina.