*

Bílar 8. apríl 2013

Sportútgáfa hjá Svíunum

Nýjasti sportbíllinn frá Volvo var frumsýndur á dögunum. Hann er með breiðari framstuðara og sérstakan vindkljúf.

Róbert Róbertsson

Volvo V40 hefur vakið mikla athygli fyrir öryggi og m.a. byltingakenndan loftpúða fyrir gangandi vegfarendur. Sænski bílaframleiðandinn hefur löngum þótt leggja sérstaklega mikla áherslu á öryggisþáttinn og oft á kostnað skemmtlegra aksturseiginleika. Nú hafa Svíarnir þó komið fram með sérstaka sportútgáfu af V40 bílnum sem ber nafnið Volvo V40 R-Design og er hún hlaðin búnaði. Bíllinn hefur meðal annars breiðari framstuðara, sérstakan vindkljúf neðan á afturstuðara og sverari púststúta.

R-Design er sportlegri í akstri þótt vélarnar séu í sömu stærð og venjulegur V40. Þar spilar sérstök sportfjöðrun stærsta hlutverkið og gerir hann skemmtilegri í akstrinum. 

Ýmis spennandi og skemmtilegur búnaður er í R-Design útgáfunni. Má þar nefna að hliðarspeglar, hurðarammar og grill eru með mattri satínáferð, og þá er einnig sportinnrétting og leðurklætt stýri með álrönd og R-DESIGN lógói, TFT digital mælaborð með bláum skífum, pedalar úr áli, sérstakt áklætt stjórnborð og álklæddar hurðahlífar, gírstöng með upplýstum 3D stöfum og LED dagljós.

Bíllinn er eins og áður segir með sömu vélar og V40 bíllinn en þar er 1,6 lítra díselvélin vinsælust. Hún er 113 hestöfl en togið er 270 Nm. R-Design var frumsýndur í Brimborg núverið. 

Stikkorð: Volvo  • Volvo V40