*

Bílar 2. apríl 2016

Sprækur Sportage

Ný kynslóð af Kia Sportage kom á markað í ársbyrjun. Þetta er fjórða kynslóð þessa vinsæla sportjeppa.

Róbert Róbertsson

Nýr Sportage er fallega hannaður og enn eitt dæmið um vel heppnaða hönnunarstefnu Kia á undanförnum árum. Breytingarnar á sportjeppanum eru talsverðar á milli kynslóða bæði að innan og utan. Framendinn er mjög breyttur. Aðalljósin eru tignarleg, staðsett ofar en áður og þokuljósin eru stór og áberandi.

Hliðarnar eru með sterkari línum og hjólskálaumgjörðirnar eru meira áberandi. Lengra er á milli fram- og afturhjólanna sem undirstrikar sportlegar línur bílsins. Innréttingin er vönduð og vel hönnuð. Bíllinn hefur einnig stækkað frá fyrri gerð og þar af leiðandi er meira pláss fyrir ökumann og farþega sem og farangur.

Margar vélarútfærslur í boði

Sportage er í boði í ýmsum vélarútfærslum en mest áhersla er lögð á tveggja lítra dísilvélina sem skilar 136 hestöflum. Þetta er stærri dísilvélin en einnig er hægt að fá bílinn með 1,7 lítra dísilvél sem skilar 115 hestöflum. Bíllinn er einnig í boði með 1,6 lítra bensínvél sem skilar 177 hestöflum og er mjög skemmtilegur. Þá er einnig hægt að sérpanta bílinn með tveggja lítra bensínvél sem skilar 185 hestöflum og togar alls 400 Nm. Þannig útbúinn er Kia Sportage orðinn allsvakaleg græja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Kia  • Kia Sportage