*

Ferðalög & útivist 25. maí 2013

Sprenging í bókun ferða í sumar

Asíubúar sækja mikið í ferðir á vegum Extreme Iceland.

„Það gengur næstum því of vel að bóka hjá okkur,“ segir Hildur Bruun, starfsmaður Extreme Iceland. Hún segir áhugann á Íslandi aldrei hafa verið meiri en í sumar. „Það má kalla þetta sprengingu. Það er enn meiri aðsókn í sumar en í fyrra og það þótti gott ár.“

Extreme Iceland er ferðaþjónusta sem skipuleggur ferðir og hefur sérhæft sig í hellaferðum, hálendisvetrarferðum og dýrum einkaferðum.

Ferð sem hefur notið mikilla vinsælda kallast „Self drive túr“.

Hildur segir: „Þá skipuleggjum við leiðina, leigjum bíla, finnum gistingu og síðan fer fólk sjálft af stað.“ Nánast er orðið fullt í þessar ferðir og að auki öll gisting uppbókuð úti á landi yfir háannatímann frá 15. júní til 15. ágúst.

„Við höfum nánast þurft að vísa fólki frá. Skýringin er hugsanlega sú að markaðssetning síðustu ára er að skila sér núna og síðan eru Asíubúar vaxandi hópur hjá okkur í allar ferðir. Ferðamenn frá Singapúr, Taívan og Hong Kong sýna landinu mjög mikinn áhuga,“ segir Hildur.