*

Tölvur & tækni 24. janúar 2012

Sprenging í röðum spjaldtölvueigenda

Mun fleiri Bandaríkjamenn eiga nú spjaldtölvur en fyrir mánuði. Svo virðist sem tölva hafi leynst í pakka undir mörgum jólatrjám.

Eigendum spjaldtölva fjölgaði gríðarlega yfir hátíðirnar, ef marka má nýjustu upplýsingar markaðsrannsóknafyrirtækisins Pew. Þegar fyrirtækið kannaði hversu margir Bandaríkjamenn áttu spjaldtölvur um miðjan desember í fyrra og áttu þá einn af hverjum tíu slíkan grip. Nú í byrjun árs áttu tæplega 20% sem þátt tóku í könnun fyrirtækisins spjaldtölvu.

Á sama tíma fjölgaði þeim sem eiga lesbretti úr 18% í desember í fyrra í 29% nú.

Í umfjöllun netmiðilsins Digital Trends segir að þótt markaðshlutdeild iPad-tölvanna sé yfirgnæfandi þá skrifist aukningin ekki síst á það að ódýrari spjaldtölvur komu á markað undir lok síðasta árs, svo sem lesbrettin Nook frá Barnes & Noble og Kindle Fire-brettið frá netversluninni Amazon. Talsverður verðmunur er á tölvunum. iPad-spjaldtölva kostar í kringum 500 dali á meðan Kindle Fire-tölvan kostar 200 dali.

Í netmiðlinum segir að sérfræðingar telji Apple hafa selt um 13 milljónir spjaldtölva yfir hátíðirnar en Amazon á bilinu fjórar til fimm milljónir stykkja.

Stikkorð: iPad  • Kindle Fire  • Nook