*

Menning & listir 22. september 2019

Sprenging í útgáfu hlaðvarpa

Ný hlaðvörp hafa sprottið upp eins og gorkúlur síðustu misserin. Allir ættu að geta fundið hlaðvarp sínu áhugasviði.

Ingvar Haraldsson

Vinsældir hlaðvarpa hafa aukist mikið undanfarin ár. Ástæðurnar eru eflaust margar.  Sífellt ódýrara er að fjárfesta í upptökubúnaði sem tekur upp í góðum hljómgæðum. Úrvalið er það mikið að hægt er að hlusta á þau hlaðvörp sem passa nákvæmlega inn á áhugasvið hvers og eins og hlusta má eins lengi og fólk hefur áhuga og tíma til. Margir hlusta á hlaðvörp þegar húsverkin eru unnin, úti að hlaupa eða hjóla, á leið til og frá vinnu eða fyrir svefninn. Þegar allt er talið má eflaust finna á annað hundrað hlaðvarpa sem gefin eru út á Íslandi og erlendis skipta hlaðvörpin eflaust tugum þúsunda. Því er ekki rými til að tæpa á nema litlu broti af hlaðvarpsflórunni í þessari samantekt.

Fílalag

Bergur Ebbi og Snorri Helgason, hafa undanfarin fimm ár hist reglulega og rætt lög sem þeir fíla. Eitt lag er tekið fyrir í hverjum þætti og farið er yfir lagið frá öllum mögulegum hliðum. Textinn, laglínan, stemmingin, tíðarandinn í kringum útgáfu lagsins, tónlistarmennirnir og minningar tengdar laginu er greint ofan í kjölinn.

Hismið

Almannatengillinn Grétar Theodórsson, og lögmaðurinn Árni Helgason kryfja fréttir líðandi stundar í Hisminu. Oftar en ekki eru málin rædd út frá sjónarhorni millistjórnandans í Borgartúni sem þarf að allt í senn að vera hress, virkur á Twitter, hlaupa maraþon, hjóla í Wow Cyclothon, helst lesa eina bók á viku og um leið vera fyrirmyndarforeldri sem skutlar og sækir á æfingar, eldar kvöldmat sjö daga í viku og er virkur í foreldraráðum og félagsstörfum. Heiðarleg vinna, raunhagkerfið og fólk sem borðar kjöt í brúnni sósu í flest mál er þeim mjög hugleikið þó þeir sjálfir séu nokkuð langt frá því að vera fulltrúar þess kima þjóðlífsins.

Þegar ég verð stór

Vaka Njálsdóttir og Vala Rún Magnúsdóttir halda úti þættinum Þegar ég verð stór þar sem þær ræða við áhugaverðar konur um hvað þær hafi ætlað að verða þegar þær urðu stórar. Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var til viðtals í nýjasta þætti Völu og Vöku.

Dr. Football og Fótbolti.net

Fyrir boltaþyrsta íþróttaáhugamenn er úrvalið yfirgengilegt og meira en pláss er til að nefna hér. Hjörvar Hafliðason stýrir þættinum Dr. Football, þar sem farið er yfir það helsta í knattspyrnuheiminum bæði hér heima og erlendis. Þá heldur Fótbolti.net einnig út nokkrum þáttum á borð við Innkastinu, Heimavellinum, Miðjunni og þætti á X-977 þar sem tíðindi í boltanum eru krufin til mergjar. Drengirnir í þættinum Steve Dagskrá fara yfir fótboltann með sínu nefi þar sem umfjöllunarefnið er oftar en ekki ýmislegt annað en úrslit leikja. Þá heldur Jóhann Skúli Jónsson, út þættinum Draumaliðið þar sem gamlar og yngri hetjur úr boltanum velja draumalið leikmanna sem þeir hafa spilað með á ferlinum. Þá er gamla brýnið Valtýr Björn Valtýsson farið aftur í loftið með Mína skoðun sem hann hélt úti um langt árabil en hefur legið í dvala undanfarin ár. Í Handkastinu eru tíðindi úr handboltaheiminum skeggrædd.

Tæknivarpið

Það nýjasta í heimi tækni, tækja og tóla krufið til mergjar. Fyrir þá sem vilja vita allt um nýjustu snjallsímana, fartölvurnar, stýrikerfin, og hvað sé að gerast hjá Apple, Google, Microsoft, Samsung, Amazon er óhætt að mæla með Tæknivarpinu.

Alfa hlaðvarp

Hlaðvarpsþættir úr nokkuð óvæntri átt. Fjárfestingafélagið Alfa framtak hóf í lok sumars að gefa út eigin hlaðvarpsþætti þar sem Gunnar Páll Tryggvason ræðir við einstaklinga úr atvinnulífinu um feril þeirra og störf.

Heimskviður

Birta Björnsdóttir og Guðmundur Björn Þorbjörnsson, fréttamenn á RÚV, fara yfir stærstu mál heimsfréttanna hverju sinni í þættinum Heimskviðum.

Planet Money og Freakonomics

Fyrir þá sem hafa áhuga á efnahagsmálum og hagfræði frá fjölbreyttustum hliðum eru Planet Money og Freakonomics kjörnir. Í báðum tilfellum er verkfærakista hagfræðinnar nýtt til að útskýra bæði hversdagsleg og margflókin viðfangsefni. Bandaríska almannaútvarpið NPR heldur úti Planet Money. Þáttaröðin hóf göngu sína í september 2008, í miðju efnahagshruninu með það að markmiði að útskýra fyrir hlustendum hvers vegna fjármálakerfið væri við það að hrynja. Síðan þá hafa efnistökin breikkað til muna og fjalla þættirnir um allt milli himins og jarðar sem tengja má hagfræði með einhverjum hætti. Freakonomics byggja á samnefndri bók sem kom fyrst út árið 2005. Meðal viðfangsefni nýlegra þátta Freakonomics eru hin ómögulega opnu skrifstofurými, hvort nöfn einstaklinga skipti máli fyrir árangur í lífinu, veðmálageirinn og upprisa gervikjöts.