*

Tölvur & tækni 20. desember 2011

Sprenging í verksmiðju sem sér Apple fyrir iPad-tölvum

Sextíu slösuðust í sprengingu í verksmiðju í Kína sem framleiðir iPad-tölvurnar fyrir Apple. Salan hefur aukist um 70% á milli ára.

Sextíu slösuðust og flytja þurfti 27 á sjúkrahús eftir sprengingu í einni af verksmiðjun raftækjaframleiðandans Pegatron í Sjanghæ í Kína. Fyrirtækið framleiðir íhluti í tölvubúnað, þar á meðal iPad 2-spjaldtölvurnar frá Apple en auk þess tölvubúnað fyrir HP, Dell og Asus.

Í frétt netútgáfu bandaríska tímaritsins Forbes af málinu segir að hugsanlega geti sprengingin sett mark sitt á áætlanir Apple um sölu á iPad-tölvum um jólin þar sem draga muni úr framleiðslu á tölvunni. Engar skemmdir munu þó hafa orðið á vélbúnaði verksmiðjunnar.

Þá segir í netútgáfu blaðsins þetta eitt áfallið til viðbótar við nokkur sem setji skarð í framleiðslu á tölvunni. Jarðskjálftinn í Japan í vor og aðrar náttúruhamfarir sem settu efnahagslífið þar á hliðina höfðu talsverð áhrif auk þess sem sprenging varð í verksmiðju annars fyrirtækis í Kína þar sem tölvurnar eru framleiddar fyrir Apple.

Fram kemur í Forbes að iPad 2-spjaldtölvan seljist eins og heitar lummur um þessar mundir, salan hafi aukist um 70% frá síðustu jólum þrátt fyrir að tölvan hafi eignast keppinauta á spjaldtölvu-markaðnum.

Stikkorð: iPad  • ipad 2