*

Veiði 23. júní 2018

Stærðin skiptir máli

Bubbi Morthens segir að stærð flugunnar skipti meira máli en litasamsetningin.

Trausti Hafliðason

Bubbi Morthens tónlistarmaður er ástríðufullur veiðimaður. Hann hefur gefið út fjölda veiðibóka og veit því sitthvað um stangaveiði. Í dag snýst veiðin hjá Bubba aðallega um að finna þann stóra eða eins og hann sjálfur hefur sagt þá er hann að leita að tröllum. Heimkynni stærstu laxa landsins eru í Laxá í Aðaldal og það er því engin tilviljun að hún er í mestu uppáhaldi – Nessvæðið á hug hans allan. En hvaða flugur ætli Bubbi noti mest í veiðinni og hvað er það sem skiptir mestu máli þegar egna á fyrir laxi?

„Það er fyrst og síðast stærðin sem skiptir máli,“ segir hann. „Stærð flugunnar og hvernig maður ber hana fyrir laxinn eru mikilvægustu þættirnir þegar kemur að laxveiði. Sjálft fluguvalið fer svolítið eftir fegurðarskyni hvers veiðimanns komið. Litirnir skipta minna máli en stærðin. Ég tel reyndar að það skipti máli hvort flugan er ljós eða dökk en númer eitt, tvö og þrjú þá þarf maður að hitta á réttu stærðina og réttu veiðiaðferðina.

Ætlar maður að veiða á dauðreki eða strippa? Ef maður strippar þá skiptir máli hvort maður strippar hægt eða hratt eða einhvers staðar þar á milli. Þetta þarf veiðimaðurinn að finna út hverju sinni. Mismunandi veiðistaðir krefjast þess að veiðimaðurinn beiti mismunandi veiðiaðferð. Það skiptir málið hvort rennslið er hægt eða hratt. Fiskar bregðast öðruvísi við þar sem rennslið er hratt en þar sem það er hægt. Það kannast vafalaust margir við það að í hröðu rennsli er takan oft ofsafull, sem helgast af því að laxinn hafði mjög stuttan tíma til að ákveða hvort hann ætlaði að taka agnið eða ekki.

Í Aðaldalnum, þar sem straumurinn oftast hægur og þungur þá hegðar laxinn sér öðruvísi víða annars staðar. Við þær aðstæður veiði ég nánast bara á dauðreki. Ég strippa reyndar mjög sjaldan. Ég geri það kannski helst á veiðistaðnum efri Grástraumi því þar bregst laxinn stundum við hröðu strippi. Það er reyndar líka mjög gott gárubragðið á þessum veiðistað.“

Uppháhaldsflugurnar

Eins og flestir ef ekki allir veiðimenn þá á Bubbi sér sínar uppáhaldsflugur.

„Fyrsta flugan sem ég set undir er sennilega hefðbundin Metallica hnýtt af Pétri Steingrímssyni í Nesi. Fluga númer tvö er Nighthawk. Það hvaða týpu af Nighthawk ég nota fer eftir birtu og vatnsmagni. Þessar tvær flugur hafa reynst mér alveg ótrúlega vel.

Aðrar flugur sem ég nota eru til dæmis Black eða Blue Doctor. Black Doctor nota ég þegar það er skýjað en Blue Doctor þegar það er heiður himinn. Ef það er mikill dumbungur þá hefur White Wing verið alveg rosalega öflug og hún er því alltaf í boxinu hjá mér. White Wing hefur gefið mér stóra laxa við alveg ótrúlegar aðstæður.

Flugan Sally eftir Pétur er líka gríðarlega öflug. Búkurinn er blár, broddurinn rauður og gylltur, skeggið rautt og blátt og vængurinn er svartur og brúnn. Hausinn er síðan svartur með rauðu röndinni sem Pétur er svo þekktur fyrir. Þessi fluga er algjörlega „deadly“ í Aðaldalnum en hefur líka reynst mér vel í Hrútafjarðará og í Hofsá. Svipaða sögu með segja af Metallica. Hún hefur gefið mér í öllum ám, það skiptir engu máli hvar ég hef verið, hún stendur alltaf fyrir sínu. Það minnir mig á það að ég nota bláa Metallicu gjarnan snemma sumars, þá meina ég í júlí. Vinur minn minn setti í risalax sem hann missti í Höfðahyl í júlí á bláa Metallicu. Krauni [Björgvin Viðarsson bóndi á Kraunastöðum og leiðsögumaður í Nesi] sá laxinn vel og telja menn að þessi fiskur hafi verið 35 pund eða meira.“

Verkamannsflugur

Bubbi hnýtti sjálfur flugur hér áður fyrr en segist að mestu vera hættur því í dag.

„Mér finnst bara svo ótrúlega gaman að veiða með flugunum hans Péturs. Það er annað við flugurnar hans. Þær eru hnýttar á hnausþykka Kamazan-króka, í rauninni silungakróka því hausinn er boginn niður en ekki upp. Það réttist ekki úr þessum krókum, sama hvað gengur á. Flugurnar hans Péturs er svolítið blue collar – verkamannsflugur. Flugurnar, sem Pétur hnýtti í gamla daga, finnst mér enn í dag vera fallegustu flugur sem hnýttar hafa verið af Íslendingi. Það eru þessi séreinkenni eins og bogni hausinn með rauðu röndinni sem gera þær svo sérstakar. Það er eitthvað við flugurnar hans sem er svo orginal. Þó að ég hafi hér nefnt nokkrar flugur þá er ég alveg óhræddur við að prófa allan andskotann. Ég verð reyndar að viðurkenna að í þau ellefu ár sem ég hef veitt í Aðaldalnum hef ég aldrei sett Frances undir.“

Spurður hvort hann hafi óbeit á þeirri flugu svarar Bubbi: „Nei, nei, nei. Ég veiddi á hana í gamla daga en ég hef engan áhuga á henni í dag. Ég veit að margir veiða á Frances og aðallega túburnar. Ég veiddi á túbur hér áður fyrr og þá aðallega Black and Blue. Þegar ég var að byrja í Aðaldalnum þá setti ég mína tvo fyrstu laxa á þá túbu. Fyrri laxinn var tuttugu punda fiskur sem ég veiddi á Kirkjuhólmabrotinu. Hinn var svo stór að ég þori ekki nefna neina tölu. Með mér voru þeir Árni Pétur Hilmarsson leiðsögumaður, Gísli Ásgeirsson, oft kenndur við Selá og Hofsá og Haraldur Eiríksson, sem nú er hjá Hreggnasa. Við erum á því að þetta sé einni stærsti lax sem sett hafi verið í í Aðaldalnum. Hann tók á Núpafossbreiðunni og fór niður fossinn og upp aftur. Ég var með hann í svona klukkutíma áður hann rétti úr króknum og synti sína leið. Eftir þetta varð ég ástfanginn af Laxá í Aðaldal.

Í dag veiði ég ekki lengur á túbur því mér þykja þær einfaldlega ljótt fyrirbæri. Mér finnst Tobyspúnninn fallegri en túba. Þegar maður byrjar að veiða með einkrækjunum þá nennir maður ekki hinu. Það er alveg ólýsanleg tilfinning að glíma við tuttugu punda fisk, sem hefur tekið litla einkrækju. Í dag veiði ég bara á einkrækjur eða tvíkrækjur en þetta er auðvitað allt einhver sérviska. Ég meina, ég spila bara Martin gítara en ekki Gibson.“

Viðtalið við Bubba er að finna sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is