*

Bílar 14. september 2015

Stærri og rýmri BMW X1

Aukið rými, betri aksturseiginleikar og minni eldsneytisnotkun einkenna nýjan BMW X1.

Róbert Róbertsson

Nýr BMW X1 sver sig nú að öllu leyti í ætt annarra BMW bíla í hinni vinsælu X línu. Bíllinn hefur fengið nýtt ytra útlit og er auk þess rýmri að innan en áður, bæði í farþega- og farangursrými.

Auk meira rýmis, betri aksturseiginleika og minni eldsneytisnotkunar er fleira í boði sem gerir nýjum BMW X1 kleift að skapa sér sérstöðu. Hægt er að fá nýjan X1 með sjálfvirkri fjöðrunarstillingu, sk. Dynamic Damper Control, sem sjálfkrafa stífir fjöðrun bílsins ef ökumaður eykur inngjöf og hraða. Þá verða LED aðalljós einnig í boði auk „Head-Up Display“ sem speglar helstu upplýsingum úr mælaborði upp á framrúðuna svo ökumaður þurfi ekki að líta af veginum.

Nýtt útlit, meira rými og ný gerð af xDrive fjórhjóladrifi gefa til kynna að BMW X1 hafi öðlast meiri jeppaeiginleika en fyrirrennarinn. Fjórhjóladrifið er nú með enn léttari og nákvæmari vökvakúplingu sem stýrir virkni fjórhjóladrifsins og dreifingu á afli til hjólanna á nákvæmari hátt en áður sem aftur eykur eldsneytisnýtingu vélarinnar. Auk þess dreifir xDrive fjórhjóladrifið aflinu milli fram- og aftur áss eftir akstursaðstæðum hverju sinni og skynjar um leið hvaða hjól hefur mest grip til að beina aflinu þangað. Ný yfirbygging X1 er rúmum 5 cm hærri sem gerir umgengni við bílinn þægilegri. Þá hefur sætishæð fram- og aftursæta verið hækkuð um allt að 6 cm sem einnig eykur þægindi og yfirsýn auk þess sem fótarými er nú meira, bæði við fram- og aftusæti. Hægt er að fá nýjan X1 með hreyfanlegum aftursætumog eykst þá fótarými við aftursætin um tæpa 7 cm. Farangursrými er 505 lítrar og getur mest orðið 1,550 lítrar. Hæð undir lægsta punkt á nýjum X1 er 18,2 cm.

Innréttingin er full af flottum smáatriðum sem auka þægindi og allan aðbúnað og nýjustu gerðir 4 strokka dísilvélanna ásamt hinu þróaða xDrive fjórhjóladrifi hámarka nýtingu eldsneytisins með svo árangursríkum hætti að útblástur CO2 lækkar um allt að 17% á milli gerða.

Hinn nýi X1 verður boðinn með nýjum kynslóðum bensín- og dísilvéla sem uppfylla að sjálfsögðu nýjan EU6 útblástursstaðal. Auk xDrive fjórhjóladrifsins verður nýr BMW X1 einnig í boði með framhjóladrifi í sDrive útgáfu. Bensínvélarnar sem í boði verða eru tvær; annars vegar 192 hestafla í xDrive20i og sDrive20i, og hins vegar 170 231 hestafla í xDrive25i.

Eins og undanfarin ár má búast við að áhugi á dísilvélunum verði meiri en bensínvélinni, enda setur 110 150 hestafla dísilvélin í sDrive 18d nýtt viðmið í þessum stærðarflokki því eldsneytisnotkun í blönduðum akstri er aðeins 4,1 til 4,3 l/100 km og CO2 útblásturinn aðeins á bilinu 109-114 gr/km samkvæmt uppgefnum EU viðmiðunartölum framleiðanda. Aðrar dísilvélar í boði verða 190 hestöfl í xDrive20d og 231 hestöfl í xDrive25d. Nýr BMW X1 verður kynntur til leiks hjá BL í október.

Stikkorð: BMW  • BMW X1