*

Sport & peningar 19. júlí 2013

Stærsta snekkja í heimi lengri en fótboltavöllur

Snekkjan Azzam er stærsta snekkja í heimi. Enginn veit hver eigandinn er en grunur beinist að milljarðamæringi frá Mið-Austurlöndum.

Stærsta snekkja í heimi er tilbúin til siglingar. Snekkjan heitir Azzam er 590 feta löng og 68 fet á breidd. Snekkjan er 57 fetum lengri en snekkja Roman Abramovich sem þarf nú að sætta sig við það að snekkja hans, Eclipse, er komin í annað sætið yfir stærstu snekkjur í heimi.

Snekkjan Azzam er lengri en fótboltavöllur og stærri en tundurspillirinn af Arleigh Burke gerð hjá bandaríska hernum. Snekkjan slær einnig mörg skemmtiferðaskip út í íburði og lúxus.

Í síðasta mánuði var snekkjan sjósett í Bremen í Þýskalandi þar sem hún var smíðuð en það tók þrjú ár að smíða snekkjuna.

Enginn veit hver á snekkjuna en margir telja að eigandinn sé milljarðamæringur frá Mið-Austurlöndum. Bara að smíða snekkjuna kostaði 605 milljónir dala eða 73 milljarða króna. Talið er að það muni kosta 60 milljónir dala eða 7,3 milljarða króna bara að sigla snekkjunni á ári hverju. Sjá nánar á CNN

 

 

 

Stikkorð: Roman Abramovich  • Snekkjur  • The Azzam