*

Tíska og hönnun 8. mars 2013

Stærsti potturinn á stærð við litla sundlaug

Heitir pottar eru alltaf jafn vinsælir á Íslandi. Þó hefur eitt og annað breyst í gegnum árin. Pottapartí eru liðin tíð og þeir hafa stækkað.

Lára Björg Björnsdóttir.

„Munurinn liggur í því hvað er í pottinum, nudd og ljós eða bara pottur tilbúinn til tengingar,“ segir Sigrún Karlsdóttir hjá Trefjum ehf. „Algengast er að fólk taki 1300 lítra pott sem tekur svona fimm til sjö manns. Síðan má bæta allskyns hlutum í pottinn, um 60% tekur nudd í pottinn. Algengasti og vinsælasti potturinn er á 398 þúsund.“

Sigrún segir heita potta vera vinsæla og áhuginn sé mikill allan ársins hring og varla sé byggður pallur lengur án þess að gera ráð fyrir heitum potti. Hún segir þó eitt hafa breyst: „Í dag er ekki eins algengt að bjóða nágrönnum og vinum yfir í pottinn. Það er eiginlega alveg hætt. Fólk notar heitu pottana meira bara til að vera í friði og til að skoða stjörnurnar uppi í sumarbústað.“

En hvað kostar dýrasti potturinn hjá þeim í Trefjum? „Dýrasti potturinn okkar tekur allt upp í 14 manns. Við seljum alltaf nokkra þannig á ári og þá helst í stóra bústaði en líka bara á venjuleg heimili hér í borginni. Hann kostar 976 þúsund og er 2200 lítra,“ segir Sigrún.

Stikkorð: Heitur pottur