*

Menning & listir 20. júlí 2019

Stærstu tónleikar Íslandssögunnar

Hvar tónleikar Ed Sheeran verða í röðinni yfir þá fjölmennustu sem haldnir verða hér á landi veltur á því hver er spurður.

Poppgoðið Ed Sheeran heldur tvenna tónleika á Laugardalsvelli 10. og 11. ágúst. Uppselt er á fyrri tónleikana sem verða einhverjir þeir fjölmennustu sem haldnir hafa verið hér á landi, með nærri þrjátíu þúsund gesti. Hvar í röðinni tónleikarnir verða yfir þá fjölmennustu er ekki endilega auðvelt að svara til um. Tónleikahaldarar hafa margoft auglýst tónleika með þeim formerkjum að um fjölmennustu tónleika Íslandssögunnar, þótt það hafi oftar en ekki verið dregið í efa.

Á síðari hluta 20. aldar var Laugardalshöllin sá tónleikastaður sem hýsti tónleika stærstu erlendu hljómsveitanna sem komu hingað til lands en hægt var að koma fimm til sex þúsund manns í höllina. Frægustu hljómsveitirnar voru lengi vel Led Zeppelin sem tróð upp árið 1970 og Deep Purple sem kom ári síðar. Hvað varðar gestafjölda hafa útihátíðirnar þó sennilega verið fjölmennustu tónleikarnir hér á landi fram eftir 20. öldinni. Ein sú fjölmennasta var til að mynda í Húsafelli árið 1969 þegar áætlað var að tuttugu þúsund manns hefðu látið sjá sig.

Stórtónleikahrina frá aldamótum

Gullöld stórtónleika hér á landi hófst af alvöru á uppgangsárunum eftir síðustu aldamót. Laugardalsvöllur var leigður undir tónleika með Elton John árið 2000. Skipuleggjendur höfðu vonast til að fá allt upp í 18 þúsund manns. Nokkuð færri mættu eða um 8 þúsund manns. Elton John þótti skila sínu en tónleikagestir kvörtuðu undan því að umgjörð tónleikanna hefði mátt vera betri. Metallica bætti um betur og troðfyllti Egilshöll árið 2004 svo erfitt reyndist að koma nægu súrefni inn í húsið til að tryggja að allir tónleikagestir héldust við meðvitund. Talið er að 19 þúsund manns hafi sótt tónleikana.

Stór nöfn á borð við Iron Maiden, Duran Duran, Foo Fighters, Queens of The Stone Age, Eric Clapton, Roger Waters, Snoop Dogg fylgdu í kjölfarið og tróðu upp í Egilshöll á næstu árum. Engum tókst þó að slá við fjöldanum sem sá Metallica. Fall bankanna og krónunnar árið 2008 og kippti fótunum undan rekstrargrundvelli fyrir tónleika með erlendum stórhljómsveitum hér á landi næstu árin. Áður en bankarnir féllu hélt Kaupþing 25 ára afmælistónleika á Laugardalsvelli, 17. ágúst 2007. Kostnaður við tónleikana hljóp á tugum milljóna króna enda var landslið íslenskra tónlistarmanna kallað til. Forsvarsmenn Kaupþings töldu 45 til 50 þúsund manns hafa látið sjá sig á tónleikunum. Fljótlega var farið að efast um þá tölu og áætlað að gestirnir hafi verið innan við þrjátíu þúsund.

Þrjátíu þúsund sáu Björk og Sigurrós

Sigur Rós hélt tvenna stórtónleika án aðgangseyris árin 2006 og 2008. Fyrri tónleikarnir voru á Klambratúni og áætlað var að 15 þúsund manns hefðu látið sjá sig. Síðari tónleikarnir voru haldnir í Laugardalnum og voru enn stærri í sniðum. Yfirlýstur tilgangur þeirra að vekja athygli á verndun náttúru Íslands. Ásamt Sigur Rós komu fram Björk, Ghostigital og Ólöf Arnalds. Lögreglan áætlaði að yfir 30 þúsund manns hefðu sótt tónleikana.

Eftir að Íslendingar náðu vopnum sínum eftir hrun átti Justin Timberlake ekki í vandræðum með að fylla Kórinn árið 2014.Nálægt sautján þúsund manns sáu popparann koma fram og létu vel af tónleikunum. Nafni hans Justin Bieber bætti um betur og fyllti Kórinn tvívegis með nítján þúsund gestum árið 2016 og mættu hörðustu aðdáendurnir á báða tónleikana. Síðasta sumar hélt svo ameríska rokksveitin Guns N’ Roses, tónleika á Laugardalsvelli þar sem tónleikahaldarar sögðu um 25 þúsund manns hafa látið sjá sig. En eins og oft áður voru ekki allir sannfærðir um þann fjölda, og áætluðu sumir að gestirnir hefðu verið vel innan við 20 þúsund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér