*

Menning & listir 20. júlí 2014

Stærstu uppboðshús heims græða á tá og fingri

Christie’s og Sotheby’s hafa selt listaverk fyrir tæpa átta milljarða Bandaríkjadollara það sem af er þessu ári.

Kári Finnsson

Stærstu uppboðshús heims, Christie’s og Sotheby’s, hafa selt listaverk fyrir um samtals 7,6 milljarða Bandaríkjadollara það sem af er þessu ári. Jafngildir þetta 22% söluaukningu hjá Sotheby’s og um 12% aukningu hjá Christie’s en þetta er metsala hjá báðum uppboðshúsum.

Christie’s birti hálfsársuppgjör sitt í gær en þar kemur m.a. fram að uppboðssala jókst um 13% frá sama tíma í fyrra yfir í 3,6 milljarða Bandaríkjadollara, einkasala um 7% yfir í 828,2 milljónir Bandaríkjadollara og netsala um 71% yfir í 141 milljón dollara. 27% þeirra sem áttu netviðskipti við Christie’s voru nýir viðskiptavinir uppboðshússins. Það sló einnig met á árinu fyrir dýrasta listaverk sem selst hefur á netuppboði þegar málverkið Pamuk eftir Richard Serra seldist fyrir 905.000 Bandaríkjadollara. Um 24% af öllum viðskiptavinum Christie’s höfðu ekki verslað við uppboðshúsið áður og námu viðskipti þeirra um 15% af heildarsölu þess.

Í fréttatilkynningu frá Christie’s segir Steven Murphy, forstjóri uppboðshússins, niðurstöðuna bera vott um leiðandi stöðu þess á markaðnum. „Það sem skiptir jafnvel meira máli er að við erum að þjónusta fleiri viðskiptavini en nokkurt annað fyrirtæki á listmarkaðnum á heimsvísu. Markmið okkar er að koma til móts við vaxandi áhuga fólks á því að kaupa listmuni í gegnum uppboð, einkasölu og nú í gegnum netsölu en sá áhugi hefur verið staðfestur með auknum fjölda nýrra viðskiptavina,“ sagði Murphy.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Christie's  • Sotheby's