*

Bílar 24. júlí 2015

Stál í stál milli þýsku lúxusbíla­framleiðendanna

Hörð samkeppni er milli Audi, BMW og Mercedes-Benz. BMW er á toppnum en blikur eru á lofti.

Stóru þýsku lúxusbílaframleiðendurnir birtu sölutölur sínar fyrir fyrstu sex mánuði ársins í fyrir skömmu. BMW trónir áfram á toppnum með 932 þúsund selda bíla. Audi er í öðru sæti með 902 þúsund bíla og Mercedes-Benz er skammt undan í því þriðja með 898 þúsund selda bíla.

BMW hefur verið í efsta sætinu frá árinu 2005 þegar Bæjarar stálu toppsætinu af Mercedes-Benz sem hafði verið mest seldi lúxusbíllinn í áratugi. Audi náði svo þriðja sætinu árið 2011 og hefur haldið því örugglega síðan.

Er Mercedes á leið á toppinn?

Þegar rýnt er í tölurnar kemur margt áhugavert í ljós. Munurinn hefur minnkað mjög á milli framleiðenda á þessu ári samanborið við síðustu ár. Aðeins munar 4 þúsund seldum bílum á milli Audi og Mercedes fyrstu sex mánuðina eða 0,4% en var 5,5% á öllu árinu 2014.

Söluaukning Mercedes er mun meiri fyrsta hálfa árið en hjá BMW og Audi. Salan hjá Mercedes eykst um 14,7%, BMW um 5,1% og Audi aðeins 3,8%. Eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan mun sætanskipan riðlast á næstu mánuðum ef miðað er við sömu söluaukninguna á fyrri helmingi ársins og sölutölum ársins á undan. Mercedes-Benz mun ná Audi í ágúst og fara nokkuð hratt framúr á næstu mánuðum á eftir.

Allt árið 2015 mun BMW selja 1.904 þúsund bíla, Mercedes 1.892 þúsund bíla og Audi 1.807 þúsund bíla ef aukningin verður óbreytt á seinni hluta ársins.

Það sem vekur þó meiri athygli er að Mercedes mun ná fyrsta sætinu af BMW í janúar eins og sést hér fyrir neðan.

Hvernig munu BMW og Audi bregðast við?

Það er ekki spurning um heldur hvernig BMW og Audi munu bregðast við dræmri söluaukningu samanborið við Mercedes, sem verður þó að teljast harla góð á venjulegan mælikvarða. Fljótlegasta leiðin er að lækka verð og það er alls ekki útilokað að arðsemi verði fórnað í stríðinu um toppsætið. Einnig gætu ný módel af bílum haft áhrif en ekki verður séð að neitt eitt módel muni hafa verulega áhrif í samkeppninni.

Fróðlegt verður að fylgjast með þýsku framleiðendunum næstu mánuðina.

Stikkorð: Audi  • BMW  • Mercedes-Benz