*

Matur og vín 8. nóvember 2014

Stanslaust undir pressu

Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í eldamennskunni.

„Mér finnst gaman að elda eitthvað sem tekur langan tíma að elda en mér finnst gríðarlega mikilvægt að hafa pláss og gera hlutina í réttri röð.“ Þetta segir Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Uppáhaldsmaturinn sem Heiða Kristín eldar er kalkúnn og ræðst hún ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

„Aðallega vegna þess að það er svo stressandi og ég er haldin óþreytandi þörf fyrir að vera stanslaust undir pressu. Það þarf að hlúa vel að kalkúninum og sinna honum og ná góðri tengingu við hann á meðan hann mallar á lágum hita í ofninum. Ég er ekki gefin fyrir hugsunarlaus verkefni og kalkúnamáltíð krefst einbeitingar.“

Heiða segir mikilvægt að hafa pláss til að athafna sig í eldhúsinu. „Ég er mikið fyrir að gera hlutina eftir tilfinningunni þegar ég er að elda en mér finnst samt mjög mikilvægt að allt sé í röð og reglu á meðan. Ef eldhúsið er í óreiðu og alls konar dót að þvælast fyrir sem á ekki erindi við eldamennskuna þá fipast ég í flæðinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.