*

Tölvur & tækni 29. júlí 2015

Start-hnappurinn snýr aftur

Síðasta útgáfa Windows-stýrikerfisins kemur út í dag, en hún verður framvegis uppfærð reglulega.

Notendur Windows stýrikerfisins í 190 löndum geta frá og með deginum í dag náð í nýjustu útgáfuna, Windows 10. Ekki stendur til að gefa út fleiri útgáfur af stýrikerfinu heldur verður það framvegis uppfært reglulega. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Windows 10 verður ókeypis fyrir þá sem nota Windows 7 og Windows 8.1 og mun virka jafnt á símum sem tölvum, spjaldtölvum og Xbox. Í nýju útgáfunni er m.a. að finna nýjan vafra, Microsoft Edge, uppfærðan Office-pakka, Xbox app og raddstýringarkerfið Cortana.

Að sögn Terry Myerson, framkvæmdastjóri stýrikerfa hjá Microsoft, var stuðst við athugasemdir og ábendingar frá yfir 5 milljónum notenda við hönnun Windows 10. Um sé að ræða besta Windows-stýrikerfið frá upphafi og það muni færa fólki og fyrirtækjum öll réttu tækin og tólin til að gera stórkostlega hluti í tölvum sínum, símum og snjalltækjum.

Start-hnappurinn kominn aftur

Notendur Windows 10 fá hinn gamalkunna Start-hnapp aftur en margir söknuðu hans úr eldri útgáfu stýrikerfisins. Þá segir í tilkynningunni að Windows 10 ræsist hratt og auki endingartíma rafhlaðnanna. Stýrikerfið er öruggara en það hefur nokkru sinni verið en í því verður að finna Windows Hello, Microsoft Passport og vírusvörnina Windows Defender. Microsoft mun veita ókeypis öryggisuppfærslur svo lengi sem viðkomandi tæki er virkt.

Hægt er að nálgast Windows 10 stýrikerfið ókeypis með því að smella hér

Stikkorð: Microsoft  • Windows  • Windows 10