*

Hitt og þetta 8. febrúar 2013

Statusar sem við þorum ekki að skrifa

Langar ykkur ekki stundum að láta allt flakka á Facebook þegar sá gállinn er á ykkur?

Lára Björg Björnsdóttir

Bara láta árans fermingarbarnið sem þakkaði ekki fyrir skíðaskóna fá það óþvegið?  Tagga dýrið inn í einn góðan status: Það var ekkert þarna vanþakkláta Jóna Jónsdóttir, ég vona að dagurinn hafi verið ömurlegur! – with Jón Jónsson (þarna er faðir fermingarbarnsins taggaður inn í þetta til að auka vægið). 

En auðvitað högum við okkur ekki svona. Við reynum að vera prúð og góð og stillt og þæg og látum ekki vettvang eins og Facebook breytast í blóðbað uppgjöra og óeirða. 

En hvað ef við gerðum einmitt það? Slepptum okkur aðeins? Létum djöfulinn flakka? Viðskiptablaðið fór á stúfana og fékk þjóðina til að segja sér hvaða statusa hún mundi láta vaða ef heimurinn væri öðruvísi en hann er. Útkoman er hér:

„Djöfullinn, enn eitt boðið í barnaafmæli“ – with (og hér er lykilatriði að tagga fjölskylduna sem bauð þér)

„Jæja, þá er gyllinæðin komin í hús.“

„Ég er full og það er mánudagsmorgun og ég er að keyra.“ (via mobile phone)

„Jæja, þá er maður enn eina ferðina búinn að eyða kvöldinu í að skoða allar myndirnar hjá öllum fyrrverandi kærustunum og núverandi kærustum þeirra.“

„Mig langar að vita hvað þið eruð öll með í laun.“

„Ég stal klósettpappír í vinnunni í dag. Ég stal líka bensíni af öllum bílunum á bílastæðinu. Galdurinn er að taka lítið bensín af mörgum bílum. Þá fatta vinnufélagarnir ekki neitt.“

„Ok, ok, ok, við náum þessu, við þurfum ekki sjöþúsundustu myndina af ykkur að borða sushi til að ná því að þið eruð smart (lífstílsskinkur).“

„Ég ætla að skalla fólk í fermingunni í dag og stela gjöfunum.“

„Ef einhver býður mér á enn einn fatamarkaðinn þá kem ég með dós af mæjónesi á helvítis lúsugu fatasöluna, smyr henni í hárið á mér fyrir framan herlegheitin og kveiki síðan í mér.“

„Ég les aldrei pistla sem einhver póstar og skrifar “nákvæmlega”, sérstaklega ekki ef pistillinn er skrifaður af karlmanni í jakkafötum eða karlmanni. Og líka umhverfisverndarsinna. Aldrei.“

„Ég er búin að taka saman lista yfir “vini” sem hafa aldrei lækað statusa um börnin mín.“

„Jólagjöfin frá kallinum kostaði 14.790 kr. Í lagi eða?“

„Það er nákvæmlega öllum í heiminum sama um stjórnmálaskoðanir ykkar. Upphrópunarmerki hjálpa ekki til.“

„Rétt upp hönd sem er að selja hluti á bland.is sem hann á ekki en þykist eiga.“

„Rétt upp hönd sem seldi kött nágrannans áðan á bland.is.“

„Stundum skoða ég allar prófílmyndirnar af sjálfri mér og gef mér einkunn í stílabók sem ég kalla „Litla ég.“

Stikkorð: Facebook