*

Menning & listir 2. maí 2013

Stefán Máni með nýja bók í haust

Ný bók eftir Stefán Mána kemur út í haust og verður Hörður Grímsson í aðalhlutverki í henni.

Lára Björg Björnsdóttir

„Nú munu aðdáendur Harðar Grímssonar kætast því hann snýr aftur í haust og verður í banastuði,“ segir Stefán Máni rithöfundur. Stefán Máni er með bók í smíðum og áætlað er að hún komi út í haust. „Við tökum upp þráðinn þar sem Feigð endaði en hún kom út árið 2011. Hörður snýr aftur til starfa eftir ársleyfi. Hann er búinn að ættleiða barn og hefur lent í ýmsum öðrum ævintýrum. Söguþráður bókarinnar byggir á sönnum atburði, barnsráni, sem var framið árið 2006 á Íslandi,“ segir Stefán Máni.

Hann vill ekki gefa upp titilinn á þessu stigi máls svo lesendur hans verða að bíða aðeins lengur. Spurður hvort hann sé farinn að huga að nýrri bók þegar þessi fer í prentsmiðjuna í haust svarar hann: „Eigum við ekki aðeins að róa okkur? Maður er alveg sveittur í þessu akkúrat núna, það kemur bara í ljós.“

Stikkorð: Stefán Máni