*

Bílar 24. apríl 2015

Stefnir á 1.609 km ofurhraða

Bíllinn sem á að slá öll hraðamet og komast á þúsund mílna hraða eða 1.609 km hraða á klst. nefnist Bloodhound SSC.

Róbert Róbertsson

Bíllinn sem á að slá öll hraðamet og komast á þúsund mílna hraða eða 1.609 km hraða á klst. nefnist Bloodhound SSC. Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins hitti bílstjórann Andy Green í Cornwall á Englandi á dögunum. Hann er handhafi núverandi heimsmets frá 1997 sem er 1.228 km á klst. á bílnum Thrust SSC.

„Ég hef verið að fara í tilraunaakstur á bílnum á flugbrautinni hér í Newquay og farið í 320 km hraða á bílnum. Það er byrjunin og svo er hraðinn aukinn jafnt og þétt og bíllinn búinn undir átökin. Þetta eru miklar tilraunir og prófanir fram og til baka. Stefnan er að slá hraðametið í sumar og ná síðan að bæta það enn frekar og komast í 1.609 km hraða á klst. eftir tvö ár,“ segir Green þegar við hittumst við morgunverði á hóteli í Newquay. Andy er fyrrverandi orrustuflugmaður hjá Konunglega breska flughernum, RAF. Þess má geta að ofurhraðinn 1.609 km á klst. sem hann hyggst ná er vel rúmlega einn og hálfur hljóðhraði.

Norskir eldflaugamótorar og þotuhreyfill frá Rolls Royce

Andy segist stefna á sjálfan metaksturinn árið 2017 á sérútbúinni 19 km langri braut í eyðimörkinni í Hakskeen Pan í Suður-Afríku en þangað til mun hann reynsluaka Bloodhound reglulega til að ná meiri og meiri hraða á bílnum. Bloodhound-­bíllinn er byggður í Bretlandi en búnaðurinn kemur að stórum hluta frá Noregi. Bloodhound minnir raunar frekar á eldflaug á fjórum hjólum en bíl. ,,Verkefnið í heild snýst ekki bara um nýtt hraðamet, heldur er það einnig í þágu vísinda, tækni og verkfræði,“ segir Andy.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bloodhound SSC  • Andy Green