*

Menning & listir 28. nóvember 2017

Stella Blómkvist slær met

Nú hefur verið horft um 100 þúsund sinnum á þættina.

Framúrskarandi móttökur á sjónvarpsþáttunum um Stellu Blómkvist staðfesta að Síminn getur framleitt innlent efni í meira mæli. Þetta segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri afþreyingamiðla og sölu Símans. Horft var á fyrsta þáttinn á 42% allra heimila með Sjónvarp Símans Premium nú um helgina en öll serían var birt í efnisveitunni á föstudag.

 „Við renndum blint í sjóinn. Aldrei áður hefur íslensk sería farið í heilu lagi inn í gagnvirkt sjónvarpskerfi. Við  vissum hinsvegar að efnið væri gott og viðtökurnar eru langt umfram væntingar,“ segir Magnús.

„Ánægjulegast er að þetta staðfestir að okkur er kleift að fjármagna og framleiða íslenskt efni fyrir þessa innlendu efnisveitu okkar. Ávinningurinn er sýnilegur eftir þessa fyrstu helgi Stellu í sýningu og sannfærir okkur um að við eigum að framleiða meira af íslensku efni í samkeppni okkar við erlendar efnisveitur eins og Netflix. Við erum á réttri leið,“ segir hann.

Stella Blómkvist sló á fyrstu þremur sólarhringunum met í Sjónvarpi Símans. Og nú á þriðjudagsmorgni hafa þættirnir verið spilaðir um 100 þúsund sinnum. Þegar hefur sjötti þátturinn verið spilaður á um 12% heimila með áskrift og því ljóst að þúsundir hafa þegar horft á alla sex þættina.

Þórhallur Gunnarsson, yfirframleiðandi þáttanna hjá Sagafilm, segist gríðarlega ánægður með þetta mikla áhorf og viðtökur áhorfenda. Hann segir ennfremur að í byrjun næsta árs fari þættirnir í dreifingu á sjónvarpsstöðvum víða um heim og vonast eftir góðum viðbrögðum erlendis líkt og hér á landi. 

Engin þáttaröð innan efnisveitunnar hefur fengið viðlíka móttökur og Stella Blómkvist. „Þættirnir Handsmaid‘s Tale voru þeir vinsælustu hingað til og er meðaláhorfið á hvern þátt þeirrar seríu á rúmlega fimm mánuðum minna en meðaláhorfið á sex þætti Stellu þessa fyrstu þrjá sólahringa,“ segir Magnús. „Við erum stolt af Stellu og hlökkum til að sjá hvernig henni reiðir af á alþjóðavettvangi og í línulegri dagskrá Sjónvarps Símans eftir áramót.“

Síminn hefur nú tvær seríur í farvatninu. „Við ætlum okkur öfluga innlenda dagskrárgerð og verðum með þætti unna eftir bók Yrsu Sigurðardóttur, DNA, á næsta ári og stóra leikna þáttaröð sem leikstýrt verður af Baldvin Z árið þar á eftir,“ segir Magnús.

Þættirnir um Stellu Blómkvist eru sex í Sjónvarpi Símans Premium og leikur Heiða Rún Sigurðardóttir, Heida Reed, aðalhlutverkið. Hún er þekktust fyrir eitt aðalhlutverkið í bresku þáttunum Poldark. SagaFilm framleiðir þættina sem eru byggðir á bókunum um Stellu Blómkvist sem margir þekkja, en enginn veit hver skrifaði.

Aðal leikkona þáttanna Heiða Rún Sigurðardóttir eða Heidi Reed eins og hún kallar sig var í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu fyrir stuttu. Sjá hér:
http://www.vb.is/tolublod/files/1681/