*

Menning & listir 10. janúar 2018

Stella spiluð 235 þúsund sinnum

Viaplay, sem er ein vinsælasta efnisveitan á Norðurlöndum, sýnir Stellu Blómkvist frá febrúarmánuði.

Þetta staðfestir Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu Sagafilm. Nú þegar hafa þættirnir verið spilaðir 235 þúsund sinnum í Sjónvarpi Símans Premium. Þættirnir verða sýndir í línulegri dagskrá frá sunnudagskvöldinu 14. janúar í Sjónvarpi Símans.

„Við erum gríðarlega ánægð með viðtökurnar hérna heima og áhugavert að sjá hvernig þáttunum reiðir af í línulegri dagskrá nú þegar svo margir hafa horft á þá í efnisveitunni,“ segir Þórhallur og fagnar áhuganum í Skandinavíu. Hann væntir frekari fregna af Stellu á næstu vikum enda þættirnir nú tilbúnir til erlendrar dreifingar.

„Alþjóðleg útgáfa af Stellu hefur verið í vinnslu og verða þættirnir ýmist sýndir erlendis sem sex þátta sería eða sem þrjár 90 mínútna sjónvarpsmyndir sem er svipað “format” og hjá hinni frægu Millennium seríu um Lisbeth Salander,“ segir hann.

„Dreifingaraðili okkar, Red Arrow International, er núna í samningaviðræðum við sjónvarpsstöðvar og efnisveitur um allan heim og hafa samningar þegar verið gerðir um sýningar á Spáni og í Belgíu svo dæmi séu tekin. Þar ríkir mikil bjartsýni og við bíðum sömuleiðis spennt eftir viðbrögðum,“ segir Þórhallur.

Íslenska spennuþáttaröðin um lögfræðinginn Stellu Blómkvist verður frá næsta sunnudagskvöldi sýnd í Sjónvarpi Símans. Þættirnir eru sex og verður einn sýndur í einu næstu vikurnar, en þættirnir komu fyrst fyrir sjónir áhorfenda þann 24. nóvember síðastliðinn.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir Sjónvarp Símans Premium á vel yfir 30 þúsund heimilum um þessar mundir. „Það er því ljóst að þættirnir hafa verið spilaðir oft á sumum heimilum landsins – eftir hentugleika hvers fjölskyldumeðlims. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur hafa ekki áður fengið tækifæri til að horfa á íslenska spennuþáttaröð í heilu lagi og því áhugavert að sjá hvaða áhrif það hefur á sjónvarpsáhorfið nú þegar þættirnir koma í línulega dagskrá í Sjónvarpi Símans.“

Stella Blómkvist var vinsælasti þáttur ársins 2017 innan efnisveitu Símans en Handsmaid‘s Tale, þættirnir sem hlutu verðlaun sem bestu dramaþættirnir á Golden Globe-hátíðinni í fyrrinótt, voru næst vinsælastir.