*

Hitt og þetta 20. janúar 2013

Stemmningin að súrna fyrir þorrann

Viðskiptablaðið leit við í vinnustaðaheimsókn í Múlakaffi.

Guðni Rúnar Gíslason

Það er súr stemning sem Halldór Marías Ásgeirsson, yfirmatreiðslumaður hjá Múlakaffi,býður upp á þegar blaðamann
og ljósmyndara Viðskiptablaðsins ber að garði. Súrmaturinn fyrir þorrann er að verða tilbúinn en þorrinn hefst á bóndadaginn 25. janúar. „Í heildina er þetta um eitt og hálft tonn af pungum, sultum og súrmati," segir Halldór en  undirbúningur hófst í sláturtíðinni í september þegar byrjað var að sjóða niður og leggja í súr. „Svo er skipt um mysu í byrjun desember. Við fleytum svo ofan af þessu eiginlega á hverjum degi. Það myndast skán sem þarf að taka svo að þetta nái að anda." Það er boðið upp á hangikjöt og saltkjöt til viðbótar við súrmatinn á þeim þorrablótum þar sem Múlakaffi sér um veisluþjónustu. Halldór áætlar að súrmaturinn sé um helmingurinn af þeim mat sem fólk neytir á þorrablótunum.

Heimilismatur í hádeginu

„Það er bara heimilismatur," segir Halldór um matinn sem boðið er upp á í hádeginu í Múlakaffi. Ljóst er að margir leggja leið sína í Múlakaffi í hádeginu og mátti  meðal annars finna fjölmarga lögregluþjóna og skemmtikrafta daginn sem Viðskiptablaðið bar að garði, þar á meðal Geir Ólafsson söngvara. „Þetta er ekki alveg jafn gott og hjá mömmu, en næsti bær við. Sem eru góð meðmæli," segir Geir sem játar fúslega að hann kemur í hádeginu nánast alla virka daga. Geir segir að hann ætli sér að líta inn þegar þorrinn gengur í garð en spenntastur er hann fyrir sviðasultunni að eigin sögn.

Hér að neðan má sjá nokkrar vel valdar myndir frá Vinnustaðaheimsókn Viðskiptablaðsins í Múlakaffi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

 



Það voru meðal annars bjúgu og gellur í boði í hádeginu þennan daginn.

 

Hrútspungarnir koma vel undan vetri. Blaðamaður Viðskiptablaðsins getur staðfest að menn verða ekki sviknir af pungunum þetta árið. Ljósmyndarinn lagði ekki í að smakka þennan veislumat.

 

Geir Ólafsson söngvari gæddi sér á súpu í hádeginu. Hann er fastagestur á Múlakaffi að eigin sögn.

 

Það var allt að fyllast þegar Viðskiptablaðið leit við á Múlakaffi.

Stikkorð: Þorramatur  • Sviðakjammar  • Hrútspungar  • Múlakaffi