*

Bílar 12. desember 2012

Steve Jobs komst upp með að aka án númeraplötu

Steve Jobs fann gloppu í bandarískum bifreiðalögum. Þannig gerði hann sér leik úr því að komast hjá því að hafa númeraplötu.

Lengi hafa sögur gengið um ástæðu þess að Steve Jobs keyrði Mercedes SL55 AMG bíl sínum ávallt um án númeraplötu. Sumir hafa sagt að hann hafi einfaldlega ekki sett fyrir sig að greiða tilheyrandi fjársektir en aðrir vilja meina að hann hafi haft sérstakt leyfi til að aka án númeraplötu.

Vefurinn iTWire birtir í dag hluta úr viðtali við Jon Callas hjá Entrust sem lengi vann hjá Apple. Aðspurður um númeraplötuleysi Jobs segir Callas skýringuna einfalda. Jobs hafi fundið gloppu í bandarískum bifreiðalögum en samkvæmt þeim hafa bifreiðaeigendur 6 mánaða frest til að setja númeraplötur á nýja bíla. Jobs samdi því við bílasölu um að leigja nýja Mercedes Sl55 AMG bíla í hálft ár í senn og losnaði þannig við númeraplötuna.

Ástæða þess að Jobs var svo annt um að sleppa við númeraplötuna fylgir sögunni þó ekki.  

 

Stikkorð: Steve Jobs