*

Tölvur & tækni 22. október 2012

Steve Jobs: Sjö tommu spjaldtölvur eru of litlar

Fyrir tveimur árum vandaði Steve Jobs ekki kveðjurnar þeim sem voru þá að setja á markað 7 tommu spjaldtölvur.

Ef svo fer sem flestir telja líklegt, þ.e. að Apple kynni til sögunnar nýja og minni iPad spjaldtölvu væri það í andstöðu við þá skoðun sem Steve Jobs heitinn viðraði fyrir um tveimur árum síðan. Stærð hinnar nýju og smærri iPad tölvu er talin vera rétt um sjö tommur.

Apple var þá að kynna árshlutauppgjör sitt fyrir fjórðunginn sem lauk í september, sem var að sjálfsögðu mjög gott. Salan á nýja iPhone 4 snjallsímanum gekk vel, sem og á iPad spjaldtölvunni sömuleiðis, en hún hafði fyrst komið á markað í apríl sama ár.

Jobs notaði tækifærið til að skjóta föstum skotum að keppinautunum og nefndi meðal annars það sem hann kallaði skriðu af spjaldtölvum sem væru að koma á næstu mánuðum. Fann hann sérstaklega að því að langflestar þessara nýju spjaldtölva væru sjö tommur á stærð, en ekki tíu tommur eins og iPad tölvan. Sagði hann að sjö tommu spjaldtölva væri hreinlega ekki nógu stór til að geta verið góð. Ein hugsanleg lausn væri að bæta upplausnina í minni tölvunum, en það kallaði hins vegar á það að notendur raspi fingur sína með sandpappír þar til þeir hafi smækkað í hlutfalli við hinn smærri skjá.

Þá sagði hann að allir spjaldtölvunotendur væru einnig snjallsímanotendur. Engin spjaldtölva geti keppt við snjallsímann í hreyfanleika og því sé engin ástæða til að smækka skjáinn. Sjö tommu spjaldtölvur væru því af vandræðalegri millistærð, of stórar til að geta keppt við símana og of litlar til að geta keppt við iPad tölvuna.

Greinilegt er að menn hafa skipt um skoðun á þessu atriði í höfuðstöðvum Apple á síðustu tveimur árum.

Stikkorð: iPad  • Steve Jobs  • Spjaldtölvur