*

Tölvur & tækni 31. maí 2012

Steve Jobs var við það að gera risamistök

Litlu munaði að iMac-tölvurnar frá Apple hétu MacMan. Steve Jobs tók í fyrstu ekki í mál að láta tæknivörurnar heita i-eitthvað.

Steve Jobs ætlaði upphaflega að kalla borðtölvuna sem hann kynnti til sögunnar árið 1998 og átti að koma rekstrinum á rétt ról MacMan. Heitið átti að vísa bæði til tölvuleiksins Pac-Man og geislaspilarans Walkman frá Sony. Í raun taldi Jobs tilvísunina í Sony góða og þrjóskaðist við að taka upp annað nafn.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýútkominni bók Ken Segall, Insanely Simple: The Obsession That Drives Apple's Success

Í bókinni fjallar höfundurinn m.a. um það þegar Steve Jobs kynnti tölvuna til sögunnar. Hún vakti heilmikla hrifningu viðstaddra en nafnið flæktist fyrir fólki. Á endanum voru tillögur settar í pott og var lagt til að hún héti iMac. i-ið átti að vísa til þess að tölvuna mátti tengja við Internetið auk þess sem hún flokkaðist til Makka-tölva. 

Jobs líkaði í fyrstu lotu ekki við neitt þeirra heita sem borin voru undir hann uns hann féllst með semingi á að láta tölvuna heita iMac.

Ætla má að hefði þessi stofnandi Apple fengið sínu framgengt hefðu fleiri græjur úr vörulínu Apple borið eftirnafnið Man. Samkvæmt því myndu spjaldtölvurnar frá Apple heita PadMan, símarnir PhoneMan, tónhlöðurnar PodMan og svo má lengi telja.

Áhugasamir geta lesið kafla úr bókinni hér þar sem fjallað er um tilurð iMac-tölvunnar.

Stikkorð: Apple  • Steve Jobs  • iMac